Að léttast fyrir þrítugt minnkar líkur á brjóstakrabbameini hjá konum með afbrigðilega BRCA1 og BRCA2 arfbera
J. Kosopoules og fleiri.
Greinin birtist í Breast Cancer Research 19. ágúst 2005
Er þetta efni eitthvað fyrir mig? Sértu ung kona úr fjölskyldu þar sem brjóstakrabbamein er algengt eða með þekktan afbrigðilegan erfðavísi (gen) sem talinn er auka líkur á brjóstakrabbameini (eins og BRCA1 og BRCA2), gætirðu viljað kynna þér efni þessarar greinar.
Bakgrunnur og mikilvægi rannsóknarinnar: Afbrigðilegir BRCA1 og BRCA2 erfðavísar (BR er fyrstu stafirnir í enska orðinu BReast (brjóst) og CA er fyrstu stafirnir í orðinu CAncer (krabbamein)) eru orsök um 5-10% allra tilfella brjóstakrabbameins í Bandaríkjunum. Líkur venjulegrar bandarískrar konu sem ekki hefur fæðst með afbrigðilegan erfðavísi brjóstakrabbameins á að fá brjóstakrabbamein eru um það bil 12% lifi hún til níræðs. Líkur kvenna sem hafa fengið að erfðum afbrigðilega BRCA1 og BRCA2 erfðavísa eru um 85% á að fá brjóstakrabbamein fyrir sjötugt.
Rannsóknir sýna að sé kona of þung eru meiri líkur á að hún greinist með brjóstakrabbamein eftir tíðahvörf en ella. Líklegast stafar þetta af því að umfram fitufrumur framleiða ýmis konar hormóna, þar á meðal estrógen. Aðrar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að það að vera of þung getur aukið hættu á að brjóstakrabbamein taki sig upp á nýjan leik.
Í þessari rannsókn kannaði rannsóknarfólk hvort það að þyngjast eða léttast hefði áhrif á brjóstakrabbamein hjá konum sem voru með afbrigðilega BRCA1 og BRCA2 erfðavísa.
Efniviður og aðferðir: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvaða áhrif breytingar á líkamsþyngd hefðu á líkur á brjóstakrabbameini hjá konum með afbrigðilega BRCA1 og BRCA2 erfðavísa. Til þess var stuðst við tvo hópa – rannsóknarhóp og viðmiðunarhóp. Allar voru konurnar með afbrigðilega BRCA1 eða BRCA2 erfðavísa, en í öðrum hópnum voru konur sem höfðu greinst með brjóstakrabbamein (rannsóknarhópurinn) og í hinum hópnum voru konur sem ekki höfðu greinst með brjóstakrabbamein (viðmiðunarhópurinn).
Konurnar sem tóku þátt í rannsókninni höfðu allar verið þátttakendur í eldri rannsóknum og öðrum klínískum rannsóknum (klínískur þýðir að byggt er á skoðun og meðferð á læknastofu eða sjúkrahúsi).
Skoðaðar voru 1.073 tvenndir kvenna, önnur úr rannsóknarhópi, hin úr viðmiðunarhópi, í allt 2.146 konur frá fimm mismunandi löndum: Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Póllandi og Ísrael.
Allar konur sem þátt tóku í rannsókninni fylltu út spurningalista samtímis því að sitja fyrir svörum hjá rannsakendum. Þær þurftu að svara spurningum um:
-
hæð
-
þyngd við fæðingu
-
núverandi þyngd
-
hversu þungar þær voru þegar þær voru 18 ára, þrítugar og fertugar
-
hversu þungar þær voru þegar þær urðu hvað þyngstar
-
ættgenga sjúkdóma
-
eigin veikindi
-
meðgöngu
-
reykingar
-
notkun getnaðarvarnapillunnar
Rannsakendur notuðu því næst tölfræðilega greiningu til að kanna sambandið milli þess að þyngjast eða léttast og líkinda á brjóstakrabbameini.
Könnunin stóð yfir á árunum 1988 til 2004 og var leidd af rannsakendum frá Bandaríkjunum, Kanada og Póllandi.
Niðurstöður: Þegar allar konur sem þátt tóku í rannsókninni voru skoðaðar komust rannsakendur að því að það að léttast um að minnsta kosti 5 kg á aldrinum 18 til 30 ára tengdist 34% minnkandi líkum á að konurnar fengju brjóstakrabbamein. Þessi minnkun reyndist tölfræðilega marktæk sem þýðir að ástæðan var þyngdartap en ekki einber tilviljun.
Rannsakendur komust einnig að því að þetta þyngdartap tengdist 53% minnkandi líkum á að konurnar greindust með krabbamein á aldrinum 30 til 40 ára. Einnig þessi minnkun var tölfræðilega marktæk.
Enn önnur niðurstaða var sú að hjá konum með afbrigðilegan BRCA1 erfðavísi sem höfðu eignast að minnsta kosti tvö börn og þyngst um 5 kíló eða meira á aldrinum 18 til 30 ára, jukust líkur á að fá brjóstakrabbamein á aldrinum 30-40 um 44%. Þessi niðurstaða var einnig tölfræðilega marktæk.
Ályktanir: Rannsakendur drógu þá ályktun að konur með afbrigðilegan BRCA1 og/eða BRCA2 erfðavísi sem léttust ungar (á meðan þær voru á aldrinum 18-30 ára) minnkuðu eigin líkur á að fá BRCA-tengt brjóstakrabbamein á unga aldri. Þeir drógu einnig þá ályktun að konur með afbrigðilegan BRCA erfðavísi ættu að forðast að bæta á sig kílóum á meðan þær væru á þrítugsaldri, einkum og sér í lægi ef þær ákvæðu að ala börn.
Lærdómur sem draga má af rannsókninni: Þetta er fyrsta rannsóknin sem vitað er til að skoði sérstaklega hvernig stjórnun á líkamsþyngd getur haft áhrif á líkur á því að fá brjóstakrabbamein séu afbrigðilegir BRCA1 og BRCA2 erfðavísar fyrir hendi. Sé þér kunnugt um að þú ert með annan hvorn þessara erfðavísa, getur það að grennast á aldrinum milli tvítugs og þrítugs dregið úr hættu á að fá brjóstakrabbamein fyrir miðjan aldur. Hjá konum sem höfðu lést um nokkurn veginn 5 kíló á milli tvítugs og þrítugs minnkuðu líkur á að fá brjóstakrabbamein fyrir fertugt um helming (50%). Hjá konum með afbrigðilegan BRCA1 erfðavísi minnkuðu líkurnar enn meira – um 65%.
Þótt rannsókn þessi sé bæði gagnleg og áhugaverð hafa niðurstöður hennar vissa annmarka í framkvæmd:
-
Flestar konur á þrítugsaldri hafa ekki hugmynd um hvort þær eru með BRCA1 og/eða BRCA2 erfðavísi (gen). Þér dettur hugsanlega alls ekki í hug að láta rannsaka þetta nema kona nákomin þér hafi greinst með brjóstakrabbamein (og hugsanlega krabbamein í eggjastokkum) ung að árum.
-
Það er auðvelt að þyngjast, einkum eftir að hafa alið börn. Að léttast er hins vegar annað mál. Eftir því sem við eldumst hægir á brennslunni og okkur hættir til að hreyfa okkur minna. Auk þess er mjög auðvelt að þyngjast aftur eftir að hafa lést – kílóin koma öll til baka, og stundum eitthvað í viðbót. Þá þarf að byrja aftur upp á nýtt. Þessar sveiflur í líkamsþyngd eru mjög algengar – 5 kíló niður, 5 kíló upp, niður um 6, upp um 3, niður um 7, upp um 9 og svo framvegis. Í þessri rannsókn var þetta fyrirbæri ekki kannað.
Þrátt fyrir þessar annmarka er ýmislegt sem má læra af niðurstöðunum og öðrum nýlegum rannsóknum:
-
Að hafa stjórn á líkamsþyngd með með því að halda sér eins nærri kjörþyngd og mögulegt er dregur hugsanlega úr líkum á að fá brjóstakrabbamein.
-
Regluleg hreyfing og líkamsæfingar minnkar fitumagn líkamans og hjálpar þér að léttast. Auk þess er regluleg hreyfing talin tengjast minnkandi líkum á brjóstakrabbameini.
-
Með því að neyta einungis fæðu sem er snauð af eða laus við óæskilega fitu og sniðganga fæðu sem er rík af hitaeiningum verður auðveldara fyrir þig að hafa stjórn á þyngdinni. Þetta tvennt getur einnig stuðlað að almennt betri heilsu og líðan.
Í hlutanum Bati og endurnýjun er að finna mikið efni um mataræði og næringu. Auk þess er að finna á síðum um náttúrulækningar ýmsar gagnlegar ábendingar. Fýsi þig að lesa meira, nægir að smella á undirstrikuðu orðin.
Fleiri mikilvæg atriði sem þú getur gert til að bæta brjóstaheilsu þína og draga úr hættu á brjóstakrabbameini eru til dæmis að
-
borða fitusnauðan, næringarríkan mat,
-
reykja ekki,
-
forðast eiturefni úr umhverfinu og tilbúin efnasambönd.
Þú getur farið inn á þann hluta brjostakrabbamein.is sem heitir Minnkaðu líkurnar til að lesa um fleiri fyrirbyggjandi leiðir sem þú getur valið að fara.
Að endingu er rétt að leggja áherslu á að komir þú úr fjölskyldu þar sem brjóstakrabbamein er algengt eða þú hefur fengið það staðfest að þú ert með afbrigðilegan erfðavísi brjóstakrabbameins, gæti verið stuðningur að því fyrir þig að fá ráðgjöf og láta rannsaka þig vel til þess að geta ákveðið hvernig þú ætlar að gæta heilsu þinnar. Þekking og ráðgjöf eru fyrstu skrefin í því að meta erfðafræðilegar líkur þínar. Það er ýmislegt sem mælir með erfðarannsóknum en einnig margt sem mælir á móti þeim. Talaðu við lækni þinn eða ráðgjafa í erfðafræði til að meta gildi þess að fara í erfðarannsókn miðað við aðstæður þínar og fáðu fræðslu um önnur atriði sem gætu gagnast þér í því skyni að draga úr hættu á brjóstakrabbameini og vernda með því brjóstaheilsu þína.
ÞB