Reykingar auka líkur á brjóstakrabbameini

Journal of the National Cancer Institute, 7. janúar 2004
P. Reynolds o.fl.

Baksvið og mikilvægi rannsóknarinnar: Margar og miklar sannanir liggja fyrir um að reykingar séu heilsuspillandi. Þær auka hættu á að fá krabbamein í lungu og þvagblöðru, og meðal margra alvarlegra heilsuspillandi áhrifa er aukin hætta á hjartasjúkdómum.

Eldri rannsóknir hafa sýnt að í brjósthimnu reykingarfólks er mikið af þeim krabbameinsvaldandi efnum sem er að finna í tóbaksreyk. Þetta hefur orðið til að vísindamenn telja líklegt að reykingar geti einnig aukið líkur á brjóstakrabbameini. Til þessa hafa rannsóknir ýtt undir þær grunsemdir og bent til þess að reykingar auki líkurnar.
Nokkrum mikilvægum spurningum um reykingar og brjóstakrabbamein er þó enn ósvarað: Eru auknar líkur á brjóstakrabbmeini þær sömu hjá öllum konum sem reykja? Eykur það líkur á brjóstakrabbameini að anda að sér reyk frá öðrum (óbeinar reykingar)? Rannsakendur í þessari könnun einsettu sér að skoða nánar hugsanleg tengsl reykinga og brjóstakrabbameins.

Efniviður og aðferðir: Árið 1995 báðu rannsakendur 116.544 kvenkyns kennara, starfandi og á eftirlaunum, um að fylla út spurningalista þar sem spurt var um reykingar þeirra, þar á meðal óbeinar reykingar. Um það bil helmingur kvennanna var enn í barneign.

Konurnar voru einnig beðnar um að svara spurningum um aðra þætti sem gætu haft áhrif á líkur þeirra á að fá brjóstakrabbamein, þar á meðal:

  • Hvort þær hefðu einhvern tíma fengið brjóstakrabbamein,

  • hvort tilfelli brjóstakrabbameins væri að finna í nánustu fjölskyldu,

  • frjósemissögu þeirra (hvenær þær fóru fyrst á túr, hvort þær áttu börn og hve gamlar þær höfðu verið þegar þær áttu börnin, hversu mörg þau væru og hvort þær hefðu haft þau á brjósti),

  • hve mikla hreyfingu þær stunduðu,

  • hver væri líkamsmassastuðull þeirra (BMI),

  • áfengisneyslu,

  • notkun hormónalyfja við tíðahvarfaeinkennum.

Rannsakendur notuðu manntal Kaliforníuríkis til að finna konur sem höfðu fengið ífarandi (illkynja) krabbamein fimm árum eða skemur áður en þær fylltu út spurningalistann. Konur sem höfðu einhvern tíma greinst með krabbamein áður en þær svöruðu spurningunum voru ekki hafðar með í lokagreiningunni.

Rannsakendur skiptu konum sem greindust með brjóstakrabbamein eftir að þær fylltu út spurningalistann í nokkra hópa með tilliti til þess hvernig reykingasaga þeirra leit út:

  • Konur sem reyktu þegar spurningalistanum var svarað,

  • konur sem höfðu reykt en voru hættar því,

  • konur sem aldrei höfðu reykt,

  • konur sem höfðu verið í umhverfi þar sem reykt var (óbeinar reykingar).

Konum sem höfðu hætt að reykja skiptu rannsakendur einnig í nokkra hópa; þær sem höfðu hætt allt að 5 árum áður en þær svöruðu, þær sem höfðu hætt 5-10 árum áður, 10-20 árum áður og 20 árum áður eða meira.

Rannsakendur leituðu einnig að öðrum þáttum sem gátu haft áhrif á líkur á brjóstakrabbameini, þar á meðal:

  • Hversu mikið og hve lengi konurnar reyktu eða höfðu reykt,

  • hvort einhver úr nánustu fjölskyldu hefði fengið brjóstakrabbamein,

  • hvort þær hefðu byrjað að reykja að minnsta kosti fimm árum áður en þær ólu sitt fyrsta barn,

  • hvort þær hefðu byrjað að reykja á unga aldri (yngri en tvítugar).

Niðurstöður: Á þeim fimm árum sem rannsóknin stóðu yfir greindust 2005 konur ÁN fyrri krabbameinssögu með illkynja brjóstakrabbamein.

Rannsakendur komust einnig að því að:

  • Konur sem reyktu enn þegar þær svöruðu spurningalistanum voru 32% líklegri til að fá brjóstakrabbamein en þær sem aldrei höfðu reykt. Svo tekið sé dæmi þýðir það að hjá konu með 12% líkur á að fá brjóstakrabbamein (með hliðsjón af aldri og fjölskyldusögu) jukust líkur um 4% (32% af 12% er um það bil 4%) og fóru upp í 16%.

  • Líkur kvenna á að fá brjóstakrabbamein sem höfðu reykt en voru hættar því voru ekki marktækt meiri en þeirra sem aldrei höfðu reykt. Þetta reyndist vera svo, hvort sem lengri eða skemmri tími var liðinn frá því að konurnar hættu að reykja og þar til þær svöruðu spurningalistanum.

  • Hætta á brjóstakrabbameini óx áberandi mikið með þeim fjölda ára og þeim fjölda vindlinga sem konurnar höfðu reykt. Því lengur sem konurnar reyktu og því fleiri vindlinga á mánuði, þeim mun meiri urðu líkur á brjóstakrabbameini.

  • Óbeinar reykingar virtust ekki auka líkur á brjóstakrabbameini.

Rannsakendur komust einnig að því að ákveðnir þættir höfðu töluverð áhrif á líkur á brjóstakrabbameini hjá konum sem reyktu:

  • Konur sem byrjuðu að reykja fyrir tvítugt voru töluvert líklegri til að greinast með brjóstakrabbamein en þær sem aldrei höfðu reykt eða höfðu byrjað að reykja eftir tvítugt.

  • Reykingar juku til muna líkur á brjóstakrabbameini, en aðeins hjá konum sem EKKI áttu sér fjölskyldusögu um sjúkdóminn. Konur með fjölskyldusögu um sjúkdóminn virtust hins vegar ekki auka líkurnar með því að reykja.

  • Með því að reykja áttu konur sem höfðu reykt í að minnsta kosti fimm ár áður en þær eignuðust sitt fyrsta barn fremur á hættu að greinast með brjóstakrabbamein en hinar.

Ályktanir: Rannsakendur drógu þá ályktun að:

Óbeinar reykingar virtust ekki auka líkur á brjóstakrabbameini.

  • Reykingar virðast auka líkur á að konur fái brjóstakrabbamein. Því meira sem konan reykir (bæði með tilliti til þess hversu lengi hún hefur reykt og hve marga vindlinga hún reykir á dag) þeim mun meiri verða líkurnar.

  • Líkur á brjóstakrabbameini af völdum reykinga virðast einnig háðar því hvort brjóstakrabbamein hefur fundist í fjölskyldu konunnar og hversu gömul hún var þegar hún byrjaði að reykja.

Rannsakendur skoðuðu hins vegar ekki ýmsa þætti í lifnaðarháttum sem gætu haft mjög mikil áhrif á líkur kvenna á að greinast með brjóstakrabbamein. Einn slíkur þáttur er mataræði. Hvað ef þær konur sem byrjuðu ungar að reykja og reyktu enn þegar þær greindust með krabbamein höfðu einnig búið við lélegra fæði, drukkið meira áfengi og hreyft sig minna en konurnar sem ekki reyktu eða höfðu hætt að reykja? Mjög erfitt gæti reynst að segja til um að hve miklu leyti auknar líkur á brjóstakrabbameini stöfuðu af reykingum og hve mikið af öðrum þáttum í lifnaðarháttum þeirra. Rannsakendur tóku fram að þeir gætu ekki skýrt þá staðreynd að líkur á brjóstakrabbameini jukust hjá konum sem reyktu en áttu EKKI nákomna ættingja sem höfðu fengið sjúkdóminn en virtust hins vegar ekki hafa áhrif á líkur hjá konum sem reyktu en ÁTTU nákomna ættingja sem höfðu greinst með brjóstakrabbamein. Þeir bentu ennig á að aðrar rannsóknir á þessu sama fyrirbæri hefðu gefið gagnstæðar niðurstöðurnar. Nauðsynlegt er að kanna þetta atriði betur til að komast að niðurstöðu um hvort reykingar hafa mismunandi áhrif eftir því hvort brjóstakrabbamein finnst í fjölskyldum eða ekki.

Lærdómur sem hægt er að draga: Ljóst er að reykingar spilla heilsu, hvort sem hægt er að finna óhrekjanlegar sannanir fyrir því að þær auki hættu á brjóstakrabbameini eða ekki.

Góðu fréttirnar eru þær að samkvæmt umræddri rannsókn minnka líkur um leið og hætt er að reykja. Rannsóknin gaf einnig til kynna að reykur frá öðrum (óbeinar reykingar) virtist ekki auka líkur á brjóstakrabbameini. Ekki verður þó framhjá því litið að í öðrum rannsóknum hafa fundist vísbendingar um að óbeinar reykingar auki líkur á margs kyns sjúkdómum.

Að vita allt um hættur samfara reykingurm dugar þér hugsanlega ekki til að ákveða að hætta að reykja. Reykingar eru ávani sem erfitt er að losa sig við. Sé þér hins vegar alvara með að vilja losna við tóbaksreykinn og hætturnar sem honum eru samfara, er sem betur fer er hægt að fá aðstoð. *Á vefsíðu Lýðheilsustöðvar www.lydheilsustod.is er hægt að nálgast lista yfir þá aðila sem bjóða upp á reykleysismeðferð. Einnig er hægt að hringja í grænt númer 800 6030 og fá ráðgjöf og stuðning (milli kl. 5 og 7 síðdegis alla virka daga) eða fara inn á www.8006030.is. hvenær sem er. Meira um ráðgjöf og stuðning við að hætta að reykja geturðu fundið með því að lesa um breytingar sem þú getur gert til að draga úr líkum á brjóstakrabbameini.

 *Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB