Bækur

Betri félaga en góða bók er vart hægt að hugsa sér. Í bókum má finna svo ótal margt. Þegar þær eru á annað borð komnar í hús eru þær við hendina og bíða þess þolinmóðar að við þeim sé litið.

Leyfi heilsan ekki að þú lesir sjálf/ur, geturðu hugsanlega beðið einhvern um að lesa upphátt eða - sem ekki er síðra - að útvega þér hljóðbók. Mörg bókasöfn lána út hljóðbækur og við sérstakar aðstæður er hægt að fá lánaðar hljóðbækur hjá Blindrafélaginu. Framboð af hljóðbókum til sölu hefur aukist til mikilla muna.

Reynsla mín er sú að í veikindum, þegar líkamleg orka er af skornum skammti eða sálin aum, forðast ég bækur sem lýsa vonlitlum eða hrikalegum aðstæðum og sæki í næringarríkar bækur, gamansamar eða einhvers konar afþreyingu eða reyfara en læt liggja kyrrar þær sem geta truflað sálarfrið minn.

Bækur sem veita mér andlegan styrk hef ég einnig að staðaldri við höndina og les oftast eitthvað í þeim daglega. Stundum nægir að lesa stuttan kafla eða jafnvel bara fáein orð. Þannig lesefni getur þú komið þér upp sjálf t.d. með því velja þín uppáhaldsljóð eitt á dag eða góðar tilvitnanir um lífið og tilveruna sem þú hefur komið þér upp.  Oftar en ekki hef ég líka haft þörf fyrir að fræðast um sjúkdóminn, kynna mér hugmyndir um hvernig ég get stuðlað að bættri heilsu eða á annan hátt orðið sjálfri mér að liði.

Á bókmenntavefnum má finna umsagnir um bækur, fréttir af útgáfum, nákvæmar og góðar upplýsingar um höfunda og margt fleira. Fyrir bókaorma er heimsókn á síðuna eins og að komast að ríkulegu hlaðborði.

Megir þú vel njóta,

 

Þuríður Baxter