Bækur á íslensku

Skemmtilegast þykir mér að lesa bækur á íslensku hvort sem þær eru frumsamdar eða þýddar, svo framarlega sem þýðingin er þjál og góð.

Á listanum mínum hafa flestar bækur um óhefðbundnar lækningar verið þýddar á íslensku af einhverju öðru tungumáli. Þýðingarnar kunna á stundum að standa frumtextanum að baki, enda er efni þannig bóka oft þess eðlis að lítil hefð er fyrir umfjöllun um það á íslensku. Engu að síður hef ég talið bækurnar nógu forvitnilegar til að rétt væri að nefna þær. Stundum er sömu bækur að finna í listanum yfir erlendar bækur. 

Meðal bóka sem fjalla um óhefðbundnar lækningar er að finna umdeildar bækur sem einhverjir munu hrista höfuðið yfir samhliða bókum sem ég tel algjörlega ómissandi. Allar eru þær þó að mínu mati þess virði að kynna sér efni þeirra.

Margar bækur á listanum yfir andlega styrkjandi bækur eru erlendar að uppruna, en þó má finna þar ómissandi íslenskar bækur. Þar eru einnig titlar bóka sem lýsa reynslu fólks af því að greinast með krabbamein eða lenda í miklum háska. Ekki er víst að öllum finnist slíkur lestur styrkjandi eða uppörvandi - það verður hver að meta fyrir sig. Sameiginlegt eiga þær þó allar að trú á lífið og tilgang þess er það sem upp úr stendur, þrátt fyrir allt. Vonandi dugar örstuttur úrdráttur eða umsögn til að gefa hugmynd um efni hvers titils fyrir sig.

Oft er það svo að um leið og maður byrjar að lesa bækur um eitthvert ákveðið efni sem hefur vakið áhuga manns, taka skyldar eða svipaðar bækur að berast að - eins og einhver flóðgátt hafi opnast. Vonandi áttu eftir að finna einhverja bók eða bækur hér sem opna þér dyr eða nýja sýn og færa þig nær því sem þú sækist eftir - ef það fellur þér ekki beinlínis í fang.

ÞB