Andlega styrkjandi bækur

Bækurnar sem hér eru nefndar eru allar þannig að sækja má til þeirra styrk, huggun, von eða leiðsögn af einhverju tagi. Titlunum er raðað í stafrófsröð. Þegar núverandi umsjónamenn bæta við bókum eru upphafsstafir þeirra í sviga fyrir aftan umfjöllun.

Á fáförnum vegi - áleiðis til andlegs þroska eftir Scott Peck, geðlækni m.m. Á frummálinu heitir bókin Further Along the Road Less Traveled, er þýdd á íslensku af Sigurði Bárðarsyni og gefin út af Andakt, bókaútgáfu, 1995.

M. Scott Peck ritaði tvær bækur um hinn fáfarna veg og var fyrri bókin, The Road Less Traveled, gefin út undir heitinu Leiðin til andlegs þroska tíu árum á undan þessari. Þessi bók er gerð eftir fyrirlestrum hans og lýsir djúpu innsæi í ýmis málefni sem nútímafólk stendur frammi fyrir, svo sem andlegan þroska, fyrirgefninguna, sambönd og samskipti, AA-samtökin, kynlíf, trúmál og nýöldina. Í formála höfundar segir m.a.: „Í þessari bók reyni ég af fremsta megni að setja fram sumt af því sem ég hef lært á síðastliðnum tíu árum; það sem hefur auðveldað mér ferðalagið er ég klöngraðist yfir ófærurnar." Og síðar: „Við þurfum ekki að fara þetta ferðalag ein. Við getum beðið okkar æðri mátt um hjálp, eða það afl sem við viðurkennum máttugra okkur sjálfum. Afl sem við skynjum flest, en þó á mismunandi hátt. Og meðan við þræðum stíginn getum við rétt hvert öðru hjálparhönd."

ÁSTIN,  DREKINN OG DAUÐINN. Um listina að lifa og elska í veröld krabbameinsins eftir Vilborgu Davíðsdóttur. Útgefandi er Forlagið (Mál og Menning) 2015.

Vilborg er rithöfundur sem hefur skrifað vinsælar bækur sögulegs eðlis. Í þessari bók skrifar hún um eigin lífsreynslu. Eiginmaður hennar Björgvin Ingimarsson greindist með heilakrabbamein 2006 þegar þau voru við nám í Skotlandi. Á þeim tíma hélt Vilborg úti bloggsíðu og sameiginlega ákváðu þau að hún mundi skrifa um greiningu hans og meðferð. Bókin byggir að hluta til á þessum bloggfærslum en til viðbótar skrifar Vilborg um samskipti sín við fjölskyldu, vini og heilbrigðisstarfsfólk. Björgvin dó 2013 og á stuttum tíma í kjölfarið  þurfti Vilborgar að kveðja fleiri ástvini. Hún skrifar á einstaklega hlýjan og nærfærin hátt um tilfinningar tengdar missi og dauða. Leiðarstef hennar er sterkt uppbyggilegt viðhorf og trúarvissa. Kærleiksríkar tengingar í lífinu fela í sér sárar kveðjustundir en jafnframt styrk til að halda áfram á nýjan hátt í skjóli mannlegrar hlýju. (NKS)

Bænabók - Leiðsögn á vegi trúarinnar, séra Karl Sigurbjörnsson tók saman og Skálholtsútgáfan gaf út árið 1992.

Í bókinni er að finna leiðbeiningar um bæn og trúarlíf, kafla sem ber heitið Dag í senn, þar sem settar eru inn morgun- og kvöldbænir ásamt ritningarstöðum til lestrar hvern dag vikunnar í fjórar vikur, bænir til að nota á helgum dögum og hátíðum, svo og á krossgötum. Þar er einnig biblíulestrarskrá, fræði Lúthers hin minni sem útskýra m.a. boðorðin tíu, trúarjátninguna, Faðir vorið, skírnina o.fl. Formáli Sigurbjörns Einarssonar, þáverandi biskups, hefst á orðunum: „Hvers vegna að biðja? Það má eins spyrja: Hvers vegna að yrða á fólk? Hvers vegna að blanda geði við aðra menn? Hvers vegna að varpa orðum á vin eða ástvin? Hví ekki að þegja þegar þú kemur heim úr vinnunni? Af hverju að sinna neinum yfirleitt nema sjálfum sér? Slíkum spurningum svarar enginn nema á einn veg."

Glerhylkið og fiðrildið eftir Jean-Dominique Bauby, Guðrún Finnbogadóttir þýddi. Fróði gaf út árið 1997.

Jean-Dominique hafði allt sem hann gat óskað sér. Hann var ritstjóri tískublaðsins ELLE, var vel efnaður og átti góða fjölskyldu og naut þess sem lífið hafði að bjóða. Líf hans breyttist á einu andartaki 1995 þegar hann hné niður og vaknaði mörgum vikum síðar algjörlega lamaður. Eini hluti líkamans sem hann gat hreyft var vinstra augnlokið, en hugur hans og skynjun var skýr. Í stað þess að gefast upp réðst hann í að vinna þessa bók. Stafaruna var lesin fyrir hann og þegar kom að stafnum sem hann ætlaði að nota deplaði hann auganu. Ritun bókarinnar var eins og geta má nærri gífurlegt þolinmæðiverk. Ein umsögn um bókina hljóðar svo: „Með því að lesa þessa stórkostlegu bók greinir maður birtu þá sem býr í huga kjarkmennis. Læstur inni í eigin veröld ferðast höfundurinn um heim minninga, ævintýra og ásta. Að lokum gefur hann lesendum ólýsanlega gjöf - vitnisburð um fegurð mannsandans."

Krabbameinið hennar mömmu 

Krabbameinið hennar mömmu er heiti á nýútkominni barnabók (2014)  eftir Valgerði Hjartardóttur hjúkrunarfræðing með myndum eftir Sigurlín Rós Steinbergsdóttur.

 Í formála bókarinnar leggur höfundur áherslu á að bókinni sé ætlað að vera stuðningur börnum og foreldrum til þess að eiga samtal um sjúkdómsgreininguna  og lífið í fjölskyldunni við þær aðstæður.  Í bókinni er komið inn á helstu atriði í greiningu og meðferð brjóstakrabbameins á tungumáli sem börnin skilja.  Aftast í bókinni  er orða- og hugtakalisti fyrir börnin með einföldum útskýringum á hvað felst í hinum og þessum orðum sem notuð eru í krabbameinsmeðferð. 

Það er Karitas ehf, hjúkrunar- og ráðgjafarþjónusta sem gefur bókina út. En hún er til sölu  þar, í Kirkjuhúsinu, Eymundson og bókabúð Máls og Menningar. (KA)


Leið pílagrímsins
, íslensk þýðing Ísaks Harðarsonar, gefin út af Forlaginu 1998.

„Trúnaðarsamræður pílagríms við skriftaföður sinn" færi nærri nákvæmri þýðingu hins rússneska titils bókarinnar sem kunn hefur orðið á ensku sem Leið pílagrímsins (The Way of a Pilgrim). Þetta er sjálfsævisöguleg frásaga stranniks nokkurs - en svo voru nefndir pílagrímarnir sem reikuðu um og settu svip á rússneskt sveitalíf frá miðöldum þar til snemma á okkar öld. Með bænina að förunauti tekst hann á hendur flökkulíf pílagrímsins. Lesandinn slæst í för og kynnist nokkru af andstreyminu og gleðinni sem lífsmáti þessi hefur upp á að bjóða. Um þennan munk er ekkert vitað og þótt nafn hans væri þekkt myndi það í engu auka áhrif sögu hans. Í meira en öld hefur einföld málsnilld hins nafnlausa einfara auðgað andlegt líf fólks í ólíkustu kirkjudeildum.


Leiðin til lífshamingju,
rituð af Dalai Lama og Howard C. Cutler, Jóhanna Þráinsdóttir þýddi og JPV útgáfa gaf út árið 2001.

Dalai Lama er andlegur leiðtogi tíbetsku þjóðarinnar og hefur dvalið í útlegð síðan 1959 er Kínverjar réðust inn í Tíbet. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels 1989. Í þessari bók segir hann frá því hvernig hann öðlaðist sálarró og vinnur að innri friði, hvernig hægt er að sigrast á þunglyndi, kvíða, reiði, afbrýði eða bara hversdagslegri geðvonsku. Hann ræðir um mannleg samskipti, heilbrigði, fjölskyldu og vinnu og sýnir fram á að innri friður er öflugasta vopnið í baráttunni við dagleg vandamál.


Leitin að tilgangi lífsins
eftir Viktor E. Frankl (1905-1997), Hólmfríður K. Gunnarsdóttir íslenskaði, gefin út af Háskólaútgáfunni, Siðfræðistofnun 1996.

Viktor Frankl var austurrískur taugasjúkdómafræðingur og geðlæknir, höfundur svokallaðrar lógóþerapíu. Bókina skrifaði hann 1945 í einni striklotu á níu dögum eftir að hann komst lifandi úr útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz. Lesandinn lærir mikið af þessu ævisögubroti. Frankl telur að það skipti sköpum fyrir möguleika manneskjunnar á að mæta örlögum sínum með reisn að hafa eitthvað til að lifa fyrir. Hvað gerir mannleg vera þegar hún uppgötvar allt í einu að hún á bókstaflega ekkert nema nakið lífið? Kjarninn í tilvistarkenningu hans má segja að sé sá, að sé einhver tilgangur í lífinu yfirleitt hljóti að vera tilgangur í þjáningu og dauða. En enginn getur sagt öðrum hver tilgangur hans er. Hver og einn verður að finna hann fyrir sig og axla þá ábyrgð sem svarið leggur honum á herðar og hann segir á einum stað í bókinni: „Fangarnir voru bara venjulegir menn, en sumir að minnsta kosti sönnuðu getu mannsins til að hefja sig yfir ytri aðstæður sínar með því að velja þann kost að vera „þjáningar sinnar verðir"."

Máttur bænarinnar eftir Norman Vincent Peale. Þýðandi Kristinn Ágúst Friðfinnsson, gefin út af Reykholti hf 1994.

Höfundurinn var prestur og rithöfundur og bækur hans fjölmargar hafa veitt milljónum manna um allan heim styrk og blessun. Bókin fjallar um bænir og geymir safn bæna sem nota má við ýmis tækifæri, margt að vísu ættað úr annarri bænahefð en við Íslendingar þekkjum. Þýðandinn segir í formála: „Bænin er leið okkar að Guði og leið Guðs að okkur. Hún er brú á milli okkar og Guðs. Enginn er í reynd svo sterkur eða sjálfbær að hann hafi ekki þörf fyrir blessun og handleiðslu Guðs. Þessi bók er útrétt hönd til þeirra sem vilja taka áhættuna að biðja. Þegar á reynir kemur í ljós að bænin er náttúrulegur og eðlilegur andardráttur lífsins."

Meistari allra meina. Ævisaga krabbameins eftir Siddhartha Mukherjee  krabbameinssérfræðing. Ólöf Eldjárn þýddi bókina á íslensku og Forlagið gaf út  2015. Efnislegan yfirlestur annaðist Hlynur Níels Grímsson krabbameinslæknir. 

Bókin er einstök í sinni röð.  Þetta er fræðirit fyrir almenning sem telur með öllu 610 blaðsíður. Bókaormar og lestrarhestar munu finna þarna mikinn fróðleik og eiga góðar stundir  með þessari bók. " Vel skrifuð, raunsæ og umfram allt spennandi" er haft eftir Helga Sigurðssyni prófessor í krabbameinslækningum á kápu bókarinnar. Rannsóknarstefnur á sviði krabbameina taka á sig ævintýralegan blæ í frásögninni og von um  lækningu krabbameina er aldrei langt undan.  Persónulegar frásagnir úr heimi vísindafólks og sjúklinga eru fléttaðar saman við flókin fræði  krabbameinanna. Lýst er samvinnu Sidney Farber læknis og frumkvöðuls á sviði rannsókna á hvítblæði á fimmta áratug síðustu aldar og Mary Lasker öflugri baráttukonu á sviði heilbrigðismála,  sem beitti sér fyrir  fjáröflun í þágu hinna ungu vísinda sem þá voru á bernskuskeiði.  Eldsálir vísindanna þurfa enn í dag á að halda fjármagni til rannsókna og skýrri stefnu stjórnvalda til þess að árangur náist við lækningu og meðferð krabbameina. Fróðleg og skemmtileg bók. Hægt er að lesa sér til ánægju einstaka kafla eða alla bókina eftir því sem hentar hverjum  og einum.  Þýðing Ólafar Eldjárn er framúrskarandi og ómetanlegt að eiga aðgang að slíku riti á góðri ísensku. (NKS)

Mig mun ekkert bresta (Bók um sorg og von) eftir Jónu Lísu Þorsteinsdóttur, Skálholtsútgáfan 2004.

Stuttar hugleiðingar sem felld eru inn í ljóð og litlir textar. Lesendur skyggnast inn í huga Jónu Lísu og fylgjast með því hvernig hún glímir við söknuð og sjálfa sig í óvæntum aðstæðum. Lífið birtist henni í nýju ljósi, hún leyfir sorginni að tala og voninni að svara. Hugleiðingar hennar geta hjálpað þeim að takast á við sorg af nærfærni sem hafa orðið fyrir miklum missi og ganga til móts við lífið með trú, von og kærleika að leiðarljósi. Að missa heilsu, brjóst, þrótt til venjubundinna athafa, vinnuna, allt getur þetta framkallað mikil sorgarviðbrögð og gerir það oftast. Þá er bók eins og þessi góður vinur.

Móðir Teresa - Leiðin einfalda í þýðingu Torfa Geirs Jónssonar, gefin út af Bókaútgafunni Vexti 1997.

Móðir Teresa (1910-1997) fæddist í Albaníu og gekk ung í klaustur og fór þaðan til Indlands þar sem hún stofnaði Kærleiksboðberana og hóf að starfa meðal hinna útskúfuðu. Í bókinni fjalla Móðir Teresa, nunnur í Kærleiksboðberunum og sjálfboðaliðar um kærleika, hamingju, ótta, samúð, fjölskylduna og dauðann; - málefni sem varða okkur öll svo miklu. Lífspeki einstakrar konu speglast í bókinni sem er full visku og vonar.

Spámaðurinn eftir Kahlil Gibran, Gunnar Dal þýddi, Víkurútgáfan gaf út, fyrst árið 1958 og nokkrum sinnum síðan.

Kahlil Gibran (1883-1931) var skáld, heimspekingur og listamaður, fæddur í landi spámanna, Líbanon. Þær þjóðir sem þekkja verk þessa skálds á arabísku, telja hann mesta skáld þessarar aldar. Gibran dvaldist í Bandaríkjunum um 20 ára skeið og skrifaði þar margar bækur á enska tungu, þar á meðal Spámanninn, sem er hans frægasta verk og ein vinsælasta bók 20. aldarinnar. Hún birtist fyrst á prenti árið 1923 og hefur síðan verið þýdd á ótal tungumál. Sjálfur áleit Gibran Spámanninn sitt besta verk. Hann segir: „Frá þeirri stundu er ég fyrst orti þessi ljóð á Líbanonsfjalli, hafa þau fylgt mér hvert sem ég hef farið. Ég lá yfir að fága handritið árum saman til að vera viss um, að hvert orð væri það besta, sem ég hafði upp á að bjóða."

Söngur steindepilsins, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir skrifaði viðtölin og ritstýrði bókinni, 1999.

Í bókinni er að finna á annan tug viðtala við fólk sem hefur fengið krabbamein, karla og konur á öllum aldri. Í formála segir m.a.: „Margar bækur hafa verið skrifaðar um það hvernig hægt er að sætta sig við það sem ekki verður umflúið, hvernig hægt er að lifa lífinu lifandi í skugga yfirvofandi dauða, hvernig hægt er að komast út í ljósið úr svörtu myrkri örvæntingar. Svör við spurningum af þessu tagi verða alltaf einstaklingsbundin. Sjálfshjálparbækur af ýmsu tagi eru á boðstólum en hver og einn verður að finna eigin leið þegar á reynir." Og áfram: „Margir þeirra sem segja sögu sína í bókinni segjast hafa haft gagn af því að lesa bækur af þessu tagi. Þeir segja að þeir hafi stuðst við þær í leit sinni að styrk og sálarró við erfiðar aðstæður. Söngur steindepilsins er hugsuð sem vegvísir á þeirri leið."

Vinátta Guðs eftir Auði Eir Vilhjálmsdóttur, Kvennakirkjan 1994.

Þetta er bók um kvennaguðfræði sem höfundurinn hafði rannsakað hátt á annan áratug þegar hún skrifaði bókina. Kvennaguðfræði fjallar um líf kvenna, sjálfsmynd þeirra og hugmyndir. Hún á heima bæði í kirkjunni og kvennahreyfingunni. Í henni eru settar fram hugmyndir um að komast frá því sem bindur konur og til þess freslsis sem Guð skapaði þær til að eiga.

Þriðjudagar með Morrie (Tuesdays with Morrie) eftir Mitch Albom í þýðingu Ármanns Arnar Ármannssonar. Undirtitill bókarinnar er Gamall maður, ungur maður og stærsta lexía lífsins. Bókin var gefin út af Nýja bókafélaginu árið 2000.

Þekktur blaðamaður í Bandaríkjunum komst á snoðir um að gamli kennarinn hans þjáðist af ólæknandi sjúkdómi. Hann tók að heimsækja hann reglulega á hverjum þriðjudegii. Þeir röbbuðu um lífið og tilveruna - og úr varð ómótstæðileg leiðsögn um lífið. Oprah Winfrey hreifst svo af bókinni að hún lét gera sjónvarpsmynd um bókina og þar fór Jack Lemmon með hlutverk Morries.

ÞB