Óhefðbundnar lækningar og sjálfshálp

Fullkomið heilbrigði. Elsta heilsufræði veraldar í ljósi nútímalæknisfræði eftir Deepak Chopra, lækni. Íslensk þýðing Ara Halldórssonar, gefin út af Urði 1994. Frumtitill Perfect Health.

Höfundurinn er menntaður læknir á vesturlenska vísu en jafnframt útlærður í ayurvediskri læknisfræði og talinn fremstur meðal þeirra sem hafa leitast við að sameina vesturlenska og austurlenska læknisfræði. Bókin hefst á prófi sem ákvarðar líkamsgerðina og síðan eru þar ráð um streitu, mataræði, líkamsæfingar og daglegar venjur sem henta hverri líkamsgerð. Byggt er á 5000 ára gamalli indverskri læknisfræði sem farið hefur sigurför um heiminn undir heitinu Maharishi ayurveda. Veitt er ítarleg leiðsögn til að endurvekja eðlilegt jafnvægi í líkamanum og styrkja tengsl hugar og líkama í þeim tilgangi að yfirvinna sjúkdóma og elli.

Friður - kærleikur - lækning: um samskipti líkama og sálar og leiðina til sjálfslækningar eftir Bernie S. Siegel. Helga Guðmundsdóttir þýddi og Forlagið gaf út árið 1990. Á frummálinu heitir bókin Peace, Love & Healing. Að sögn Lillýjar Guðbjörnsdóttur sem sendi ábendinguna um bækur Bernie S. Siegel, er hún ófáanleg í bókaverslunum, en er til á bókasöfnum. Bókin fjallar um sjálfslækningu, þann hæfileika sem okkur er gefinn og læknisfræðin hefur allt of lengi vanrækt. Bernie Siegel hvetur fólk ekki til að snúa baki við læknastéttinni - en hann trúir því ekki að treysta megi á hana eina, því áhrif kærleikans á líkamann séu ótvíræð. Þeir sem eru í andlegu jafnvægi, iðka hugleiðslu, íhuga drauma eða skrifa um raunir sínar í dagbók fremur en bæla þær niður eru hæfari en aðrir til að mæta sjúkdómum og í bókinni er sýnt fram á að tilfinningar geta bætt líðan og læknað sjúkdóma. Bernie S. Siegel er bandarískur skurðlæknir sem unnið hefur einstætt brautryðjandastarf til stuðnings fólki með alvarlega sjúkdóma, hvers eðlis sem þeir eru. Hann segir: „Sjúkdómur og dauði felur ekki í sér að fólki hafi mistekist - að lifa ekki lífinu er að mistakast. Markmiðið er að læra að lifa - í gleði og kærleika. Sjúkdómar geta oft orðið til að kenna fólki það." Eins og þessi bók leitast við að gera.

Hjálpaðu sjálfum þér eftir Louise L. Hay, gefin út af Leiðarljósi 1998 í þýðingu Álfheiðar Kjartansdóttur. Frumtitill bókarinnar er You can heal your life.

Louise Hay hefur aflað sér mikillar reynslu og þekkir af eigin raun þann lækningarmátt sem jákvætt hugarfar og breytt lífsviðhorf geta haft í för með sér. Í starfi því sem hún hefur helgað líf sitt og kynnt er í þessari bók, býður hún upp á þjálfun sem skref fyrir skref upprætir orsakir ýmissa meinsemda af bæði andlegum og líkamlegum toga, stuðlar að uppbyggingu einstaklingsins svo hann læri að njóta eigin verðleika og nýta sér þá hamingju sem lífið býður upp á.


Hreysti, hamingja, hugarró eftir Guðjón Bergmann, gefin út af Hanuman ehf 2004.

Í þessari bók kynnir Guðjón Bergmann, jógakennari, fjölbreyttar aðferðir til að ná stjórn á eigin lífi og vekur til umhugsunar um hvað skiptir mestu máli. Í henni er samsafn af hugmyndum og aðferðum sem geta haft varanleg áhrif. Ágætt yfirlit yfir allt það sem getur stuðlað að hreysti, hamingju og hugarró eins og segir í titlinum og auk þess fylgir vinnubók með sem hjálpar lesandanum/nemandanum að gera hugmyndir að veruleika.


Kærleikur, lækningar, kraftaverk: reynsla skurðlæknis af einstökum hæfileika krabbameinssjúklinga til að læknast af sjálfsdáðum. Helga Guðmundsdóttir þýddi bókina sem kom út hjá Forlaginu 1988. Á frummálinu heitir hún Love, Medicine & Miracles. Að sögn Lillýjar Guðbjörnsdóttur sem sendi ábendinguna um bækur Bernie Siegel, er hún ófáanleg í bókaverslunum, en er til á bókasöfnum. Bókin fjallar um hæfileikann til að yfirvinna sjúkdóma og þær breytingar á hugarfari og lífsháttum sem kveikja von um bata. Hún fjallar um það að að lækna og lina þjáningar, hugrekki til að horfast í augu við sjúkdóma og vinna gegn þeim með hjálp lækna og hjúkrunarfólks. Hér segir frá sjuklingum sem hafa serkan vilja til að sigrast á sjúkdómum og lifa af. Bernie S. Siegel er bandarískur skurðlæknir sem hefur unnið einstætt brautryðjandastarf til stuðnings fólki með alvarlega sjúkdóma og hvernig hann leysti vanda sinni í læknisstarfi með því að vinna með sjúklingum sem manneskjum og taka þátt í baráttu þeirra af kærleik fremur en fást einungis við þá sem sem sjúikómstilfelli.

Lækningamáttur líkamans (Að efla andlegt og líkamlegt heilbrigði) eftir Andrew Weil, Þorsteinn Njálsson dr. med. þýddi, Setberg gaf út árið 1996.

Þetta er bók um heilbrigt líferni, hreyfingu og hvíld, hollt mataræði, viðbrögð við veikindum, ráðleggingar til að bæta heilsuna og um það að efla lækningamátt líkamans. Í henni fjallar læknirinn Andrew Weil um margs konar eiginleika líkamans til að viðhalda og lækna sjálfan sig, hvernig einstaklingur getur eflt ónæmiskerfið, ekki eingöngu gegn lífshættulegum sjúkdómum, heldur og til að halda góðri heilsu frá degi til dags, að efla heilbrigði til líkama og sálar og sagt er frá einstaklingum sem hafa náð einstökum árangri.

Ótuktin eftir Önnu Pálínu Árnadóttur, gefin út af Sölku 2004.

Bókin fjallar um sambúðina við Kröbbu frænku, ótuktina. Anna Pálína kynntist ótuktinni þegar hún greindist með krabbamein árið 1999. Samfara hefðbundinni krabbameinsmeðferð breytti hún um mataræði og notfærði sér hugleiðslu, nálastungur og aðrar óhefðbundnar lækningar. Í bókinni býður hún lesandanum að fylgja sér og lýsir lífssýn sinni sorg, ótta og örvæntingu en einnig ómetanlegum hamingjustundum og andlegum verðmætum. Hún var ein dáðasta og vinsælasta vísnasöngkona á Íslandi og þekkt fyrir dagskárgerð sína í útvarpi þegar hún lést úr krabbameini sama ár og bókin kom út.

 

Sjálfstyrking kvenna (Leiðarvísir til velgengni í lífinu fyrir allar konur) eftir Louise L. Hay, í þýðingu Guðrúnar G. Bergmann, gefin út af Leiðarljós ehf 1999.

Höfundurinn hefur kennt fólki um allan heim sjálfsrækt og verið fremst í flokki þeirra sem hafa beitt jákvæðum staðfestingum, hugsunarhætti og atferli til að breyta kringumstæðum í eigin lífi. Upphafið að hennar eigin sjálfrækt má rekja til krabbameins sem hún fékk í tvígang.

 ÞB