Að takast á við óttann við greiningu

Ummæli konu:

„Móðir mín dó úr brjóstakrabbameini þegar ég var fimm ára. Í hvert skipti sem ég frétti af vinkonu eða ættingja sem hafði greinst með sjúkdóminn hugsaði ég alltaf með mér: 'Guð minn góður, þetta hefði eins vel getað verið ég.' Ég var alltaf meðvituð um þetta og hafði stöðugar áhyggjur af þessu, það svo að ég þorði helst ekki að tala um þennan sjúkdóm."

—Eileen

Fagfólk sem vinnur með þeim sem greinast með krabbamein er sammála um að óttinn við sjúkdóminn sé ólíkur öðrum ótta. Þessi ótti getur tekið á sig ýmsar myndir eftir því hvar þú ert stödd í krabbameinsferlinu. Margar konur deila með þér óttanum. Þótt óttinn geti verið eðlilegur er ekki gott að lifa með honum. Við viljum hjálpa þér að finna út hvernig þú getur náð tökum á óttanum í stað þess að láta hann ná tökum á þér.

Þegar fólk greinist með krabbamein í fyrsta sinn upplifa flestir mismunandi stig ótta. Viðbrögðin eru svipuð hjá flestum og koma í ákveðinni röð:

  • Þú trúir einfaldlega ekki eigin eyrum og lokar algjörlega á það sem sagt var við þig.

  • Þú reiðist lækninum sem færir þér fréttirnar eða hverjum þeim sem það gerir.

  • Þú snýrð þér til æðri máttarvalda með spurninguna „Hvers vegna ég?" „Hvað hef ég gert til að þetta komi fyrir mig?"

  • Þú gefst upp, það er ekkert sem þú getur gert fyrir sjálfa þig.

  • Þú horfist í augu við staðreyndir hversu sárt sem það er og ákveður að berjast til þrautar.

Stór þáttur í óttanum við að greinast með brjóstakrabbamein felst í óvissunni og þeirri tilfinningu að þú hafir misst stjórn á lífi þínu — þér hefur verið kippt með í óvissuferð sem þú vilt ekki fara í. Það er erfitt að ímynda sér að eitthvað gott geti komið út úr þess háttar ferðalagi.

Raunar þarf það alls ekki að vera svo. Enginn kærir sig að vísu um að greinast með krabbamein, en margar konur sem eru í meðferð eða hafa lokið henni segja að þessi lífsreynsla hafi styrkt þær, fært þær nær fjölskyldunni og kennt þeim ýmislegt um sjálfar sig.

Að fá greininguna er skelfilegt, en um leið og ferlið fer af stað þar sem þú kemst í hendur færustu lækna, færð allar upplýsingar sem þú þarft á að halda og allan þann stuðning sem þú þarfnast hjá ástvinum þínum, verður allt auðveldara.

ÞB