Að hjálpa ástvinum að takast á við óttann

Ummæli sérfræðings:

„Börn bregðast við því sem gerist í umhverfi þeirra. Ef þú átt þess kost að tala um greininguna, nefndu hana þá réttu nafni og talaðu um hvað felst í henni. Barninu líður miklu betur ef það er ekki látið eitt um að reyna að komast að því hvað hefur komið fyrir mömmu og af hverju henni líður svona illa. Börn eru sterkari en þú kannt að halda og þau ráða við allt sem þú ræður sjálf við."

—Joan Hermann, LSW

Þegar þú greinist með brjóstakrabbamein hefur það áhrif á alla sem þykir vænt um þig. Þeim getur fundist þeir alveg jafn hjálparvana og uggandi og þú — þú ert ekki ein um að vera hrædd. Að þurfa að segja fjölskyldu og ástvinum ótíðindin og taka á með þeim, fylgir þessu ferli. Hvort sem þú átt maka eða vin, lítil börn, börn á unglingsaldri, uppkomin börn með eigin fjölskyldur eða góða vini sem hafa gengið í gegnum lífið mér þér, snertir þetta áfall í lífi þínu þau einnig og alla sem þú annt.

Þegar þú hefur jafnað þig svolítið á fyrsta áfallinu getur þú hugsanlega verið betur undir það búin að takast á við vandann en þeir sem næstir þér standa. Þú færð að vita allt mögulegt um sjúkdóminn og hvað hægt er að gera til að meðhöndla hann með góðum árangri. Því fylgir mikill skilningur og máttur. Ástvinum þínum kann hins vegar að finnast að þeir standi hjá og sjái hvað er að gerast með þig án þess að geta nokkuð aðhafst þér til hjálpar. Mikilvægast er, ávallt og ævinlega, að vinna saman að því að styðja hvert annað og vinna saman.

Sérstaklega er hætt við að krakkarnir þínir verði skelfingu lostnir og óttist að þau missi þig. Þeim getur þótt erfitt að fylgjast með þegar hárið dettur af þér og gætu farið að haga sér einkennilega í þínum augum. Þú getur gert margt til að sannfæra börnin um að þú ert sama mamman og þau hafa alltaf átt, þú þurfir bara að taka því rólega um tíma.

Þú getur líka hjálpað þeim mikið með að vera bara þú sjálf og gera þetta venjulega á sama hátt og þú hefur alltaf gert. Veittu þeim áfram mikla ástúð, hjálpaðu þeim við heimalærdóminn og skylduverkin, hvettu þau til að verja tíma með vinum sínum og láttu ekki slakna á venjulegum fjölskylduaga við það að þér líður ekki vel. Eigir þú erfitt með að halda uppi aga, láttu það þá alfarið í hendur maka þínum um tíma, en þið þurfið að sjálfsögðu að vera samtaka í því að setja mörk, skýra hvaða væntingar þið hafið til barnanna og veita þeim hrós og viðurkenningu.

Eigir þú maka eða sambýling, geturðu hjálpað honum eða henni með því að ræða tilfinningar þínar opinskátt. Samtöl, hvort sem þau snúast um heimilisverk eða dýpsta ótta þinn, eru trúlega mikilvægari nú en nokkru sinni.

Þetta þýðir ekki endilega að ekki komi dagar þegar þú vilt fá að vera ein með sjálfri þér og þurfa ekki að hugsa um aðra. Það er mikilvægt að þú verndir einkalíf þitt og þörf þína fyrir að vera ein til að vinna úr tilfinningum þínum annað slagið. Þú þarft ekki að láta eins og allt sé í himnalagi. Þér er óhætt að leyfa þeim sem næstir þér standa að vita að þeir hafa ekkert gert af sér — núna þurfir þú bara að fá að vera í friði.

Hversu erfitt sem þér kann að finnast þetta krabbameinsferðalag þarftu að skilja, að þeir sem eru í föruneyti þínu reyna eftir megni að fá botn í hlutverk sitt. Þeim getur fundist öðru hverju, rétt eins og þér, að þau ráði ekki við þetta.

Lífið er sífellt að koma á óvart og taka óvænta stefnu út og suður. Stundum getur verið erfitt að muna að hlutirnir eru ekki lengur eins og þú manst þá og að allt muni breytast á ný. Með því að stilla saman kraftana getur þú, fjölskylda þín og ástvinir, staðið af ykkur breytingarnar.

ÞB