Að takast á við óttann við að meinið taki sig upp
Ummæli sérfræðings:
„Óttinn er fyrirsjáanlegur... Áður en þú greindist hafðirðu hjúp umhverfis þig sem sagði að þú værir heilbrigð, gerðir einungis það sem rétt væri og það hvarflaði ekki að þér að eitthvað gæti komið fyrir þig. Og svo gerðist það. Og þú heldur að það geti gerst aftur. Það getur vissuslega breytt hugmyndum þínum um sjálfa þig þannig að þér finnist þú ekki lengur njóta verndar."
— Dr. Jane Mathisen, sálfræðingur
Þú hefur lokið meðferð og komist í gegnum hana. Nú hefur meinið mögulega tekið sig upp á ný eða þú hefur þegar fengið það staðfest að þú sért með dreift krabbamein (meinvörp) . Hugsanlega ertu uggandi vegna rannsóknanna sem þarf að gera eða meðferðanna sem framundan eru, hvort núverandi meðferð virkar eins og vonir standa til eða hvaða meðferðir þú gætir þurft að fara í til viðbótar. Þótt þú hafir upplifað þetta allt saman áður þýðir það ekki að auðveldara sé að kljást við óttann í þetta sinn. Engu að síður hefurðu lært ýmislegt af fyrri reynslu.
Sú hugmynd að krabbameinið geti tekið sig upp aftur kann að vekja hjá þér skelfingu. Að læra að lifa með óttanum við að brjóstakrabbamein taki sig upp og sái sér er eitt af því erfiðasta sem þú þarft að glíma við þegar þú horfir fram á veginn og tekst á við lífið á nýjan leik. Þetta er eðlilegt. Láttu samt ekki umræðuna um óttann í þessum kafla kynda undir óttanum sem hugsanlega býr með þér nú þegar. Þú mátt vita að þú ert ekki ein. Við munum gera allt sem við getum til að hjálpa þér að ná tökum á óttanum í stað þess að leyfa honum að ná tökum á þér.
Greining sem segir að krabbamein hafi tekið sig upp - s.k. endurkoma krabbameins - er alls ekki vonlaus. Síður en svo. Margar konur sem lifa það að brjóstakrabbamein tekur sig upp halda áfram að lifa löngu og frjóu lífi. Nú orðið eru til svo margar leiðir til að berjast við og sigrast á sjúkdómnum. Þú gætir hins vegar komist að raun um að þú þarft að berjast á tvennum vígstöðum: bæði við sjúkdóminn sjálfan og við ÓTTANN við hann.
ÞB