Að takast á við óttann við meðferð
Ummæli kvenna:
„Geislalæknirinn kom inn og spurði mig beint út: 'Hve mikið er þér í mun að halda brjóstinu?' Og ég svaraði því til að ég hefði svo sem ekkert hugsað um það og bætti svo við: 'Mig langar auðvitað til að halda brjóstinu, en samt ekki svo að ég vilji stofna lífi mínu í hættu.' Svo biðum við öll smástund þegjandi þangað til ég sneri mér að manningum mínum og sagði: 'Ég hefði kannski átt að bera þetta undir ÞIG?' 'Það breytir engu fyrir mig,' svaraði hann, 'ég giftist þér, ekki brjóstinu'."
—Theresa
„Ég er nýbyrjuð að fara út með vini mínum frá því í menntó. Ég hef ekki farið út með neinum síðan bæði brjóstin voru tekin af mér. Þegar ég hugleiði möguleikann á að við sofum saman finnst mér ég vera vansköpuð. Hann hefur áhuga á kynlífi með mér og virðist ekki láta þetta á sig fá. Hann er hrifinn af mér og hefur minni áhyggjur af þessu en ég. Eiginlega held ég að þetta sé fyrst og fremst eitthvað sem mér finnst vont en ekki honum."
—Kathleen
Fagfólk sem vinnur með þeim sem greinast með krabbamein er sammála um að óttinn við sjúkdóminn sé ólíkur öðrum ótta. Hann getur tekið á sig ýmsar myndir eftir því hvar þú ert stödd í krabbameinsferlinu. Margar konur deila með þér óttanum. Þótt ótti geti verið eðlilegur er ekki gott að lifa með honum. Við viljum hjálpa þér að finna út hvernig þú getur náð tökum á óttanum í stað þess að láta hann ná tökum á þér.
Tilhugsunin um hvernig meðferðin muni fara með þig kann að vekja hjá þér ótta enda er hann fullkomlega eðlilegar og flestir upplifa hann. Læknar nota orð eins „öflugur", „ágengur" og „ífarandi". Orðin geta hrætt en þau fela einungis í sér að á sterkan óvin eins og krabbamein þarf að beita sterkum meðulum. „Ífarandi" táknar að lyf verður að komast inn í líkamann til að gegna hlutverki sínu. „Öflugur" og „ágengur" felur í sér að stuðst verður við áhrifaríkustu vopnin gegn krabbameinsfrumunum.
Góðu fréttirnar eru þær að meðferðleiðir gegn krabbameini eru nú orðnar miklu áhrifaríkari en þær voru fyrir aðeins fimm eða tíu árum. Þær taka meira mið af einstaklingnum, sérþörfum hans og tegundum krabbameinsfrumna. Skurðaðgerðir hafa einnig verið þróaðar með það fyrir augum að konur geti haldið brjóstunum án þess að tefla lífi sínu í hættu og lyf hafa verið þróuð sem halda niðri óþægilegum aukaverkunum.
Þegar þú ferð í lyfjameðferð eða í geislameðferð getur það orðið liður í daglegu lífi, eitthvað sem þú þarft að sinna ákveðinn dag eða viku, en ekki eitthvað sem gerir að verkum að þú verður að fleygja öllu frá þér. Yfirleitt geta konur haldið áfram að sinna vissum þáttum daglegs lífs þótt einhverju þurfi að fresta eða breyta.
Þú gætir þurft að taka þér veikindaleyfi og þú gætir þurft að biðja vini og fjölskyldu að taka yfir eitthvað af húsverkunum um tíma. Eftir á getur þú hins vegar búist við að verða jafn virkur þátttakandi í lífinu og þú varst áður. Margar konur segja að lífið verði aldrei nákvæmlega eins á ný, en að sumu leyti getur það orðið betra en það var.
ÞB