10 ráð til að hafa taumhald á óttanum
-
Hérlendis þurfa konur til allrar hamingju ekki að leita að fólki í sitt eigið krabbameinsteymi. Um leið og ljóst er að þú ert með krabbamein er þér strax vísað á ákveðinn krabbameinslækni sem fær til liðs við sig aðra eftir þörfum, meinafræðinga, skurðlækni, geislalækni, hjúkrunarfræðing, félagsráðgjafa o.s.frv. Þú færð að hitta flesta í krabbameinsteyminu þínu og alla, óskir þú eftir því. Hafðu hugfast að þú verður að geta talað frjálslega við fagfólkið, spurt og fengið skýr svör, hjálp og stuðning þegar þú þarft á að halda. Sértu í vafa, skaltu leita álits annarra - þú átt fullan rétt á því. Þess eru dæmi að fólk skipti um krabbameinsteymi. Aðalatriðið er að ÞÉR finnist þú vera í öruggum höndum.
-
Vertu viss um að læknir þinn geti talað við þig á þann hátt sem þér finnst þægilegt, að hann bjóði þér að spyrja spurninga sem hann svarar skýrt og skilmerkilega, að hann taki áhyggjuefni þín alvarlega og láti þér í té eins miklar eða litlar upplýsingar og þér finnst þú geta tekið við á hverjum tíma.
-
Fáðu upplýsingar um við hverju þú mátt búast (úr sýnatökum, rannsóknum, myndatökum, aðgerðum, meðferðum). Láttu sem fæst koma þér á óvart.
-
Ræddu við lækni þinn um hvernig megi gefa þér upplýsingar um niðurstöður rannsókna án tafar. Sé þess kostur, skaltu fá bókaðan tíma í mikilvægar rannsónir fyrri hluta vikunnar svo að þú þurfir ekki að bíða eftir niðurstöðunum yfir langa helgi þegar hægir á vinnu á rannsóknarstofum og læknar hafa ekki samband hver við annan.
-
Hérlendis er aðeins ein leitarstöð. Þú skalt biðja um að fá að tala við röntgentækninn eða -lækninn um niðurstöður myndatökunnar áður en þú ferð heim svo að þú þurfir ekki að bíða eftir símtali.
-
Þegar þú veist að í vændum er erfið vika (brjóstamyndun í aðsigi eða nýr lyfjahringur) skaltu forðast annað sem getur aukið álagið (eins og að fara yfir bankareikningana, kortaúttektina, bjóða fólki í mat eða skipuleggja fundi í vinnunni.) Notaðu stuðningskerfið þitt —vini og vinkonur, kvikmyndir, bækur, tónlist, bænir, heilun eða slökunarnudd — allt sem getur hjálpað þér að komast í gegnum dagana.
-
Þegar velviljað fólk vill fara að segja þér sögur af öðrum sem eiga í baráttu við krabbamein skaltu stoppa það af þegar í stað og segja: „Ég hlusta bara á sögur sem enda vel!"
-
Komi til þess að þér líði svo illa að þú ert ekki mönnum sinnandi og ófær um að sjá um sjálfa þig, skaltu tala við lækni þinn og athuga hvernig lyf gætu hugsanlega hjálpað til að minnka kvíðann, þunglyndið eða svefntruflanirnar sem þú stríðir við.
-
Tengdu þig við einhvern hóp sem glímir við brjóstakrabbamein. Það kann að vera stuðningshópur — staður þar sem þú getur deilt reynslu þinni opinskátt með fólki sem skilur um hvað þú ert að tala. Þú gætir líka viljað taka virkari þátt í einhverju starfi, fræðslufundum, eða öðrum. Gerðu eitthvað sem kemur þér til að finnast þú tengjast öðrum á jákvæðan hátt og undirbýr gott líf sem ekki stjórnast af brjóstakrabbameini.
-
Finndu leiðir til að gæða líf þitt lit og gleði. Þú skalt sækjast eftir því sem veitir þér ánægju og auðgar tilveru þína. Sættu þig við sjálfa þig, hver þú ert og hvernig þú ert, og verðu tíma þínum með jákvæðu fólki sem er sama sinnis og er ánægt með þig og hvernig þú tekst á við sjúkdóminn. *Hér til hliðar eru tenglar inn í upplýsingar um samtök sem geta veitt þér þess háttar stuðning.
*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB