Ertu uggandi vegna brjóstakrabbameins?

Kannski þekkirðu til fjölda kvenna sem hafa fengið brjóstakrabbamein. Í þeim hópi kunna að vera ungar mæður, konur á frambraut, vinkonur, nágrannar, skólasystur, móðir, amma eða aðrir ættingjar. Þér gæti virst eins og varla sé hægt að líta við án þess að sagt sé frá krabbameini, hvort sem er í blöðum, tímaritum eða sjónvarpi. Þú kannt að vera í einhverjum vissum sporum: Kannski óttastu að fá brjóstakrabbamein án þess að til þess hafi komið, kannski ertu nýkomin úr brjóstamyndatöku eða einhverri rannsókn, kannski hefurðu greinst með brjóstakrabbamein og óttast að sjúkdómurinn taki sig upp eða ert farin að óttast að þú kunnir að bíða lægri hlut í baráttunni við krabbameinið.

Þótt þú óttist að fá brjóstakrabbamein er ekki þar með sagt að þú fáir það nokkru sinni. Og þótt þú hafir einhvern tíma greinst með brjóstakrabbamein er ekki þar með sagt að það gerist aftur.

Engu að síður er eðlilegt að hafa áhyggjur af sjúkdómi sem þú heyrir alltaf öðru hverju talað um og færð fréttir af — sjúkdómi sem þú hefur kannski sjálf þurft að ganga í gegnum eða upplifað með einhverjum nákomnum. Leyfðu samt ekki því sem sagt er um óttann hér á eftir að ala á þínum eigin ótta.  Á þessum vef finnur þú upplýsingar og fræðslu sem fagfólk á þessu sviði - krabbameinslæknar og fleiri - hafa tekið saman, auk þess sem þú getur hugsanlega fundið stuðning hjá samtökunum sem sagt er frá í efnisyfirlitinu hér til hliðar eða - ef þú er ósmeyk við að tjá þig á ensku - hjá konum í sömu sporum og þú ert úti um allan heim. Með því móti getur þú náð tökum á óttanum í stað þess að láta óttann ná tökum á þér.

  • Er þetta brjóstakrabbamein? Hefurðu áhyggjur af hnút eða öðru einkenni sem gæti bent til brjóstakrabbameins? Kynntu þér hver eru einkenni brjóstakrabbameins og hvað gera þarf ef um það er að ræða. Hefurðu áhyggjur af að einhverjar breytingar í líkama þínum eða einkenni annars staðar en í brjóstum þýði að krabbamein hafi tekið sig upp eða sáð sér?

  • Óttinn við fyrstu greiningu
    Flestar konur sem ekki hafa fengið brjóstakrabbamein halda að hættan á að greinast með það sé meiri en hún raunverulega er. Reyndu að fá  raunsæja hugmynd um líkurnar  á brjóstakrabbameini hjá lækni þínum. Það er margt sem hefur áhrif á þær. Fjöldi kvenna sem skoða áhættuþætti  sína kemst að raun um að líkurnar eru minni en þær töldu.  
    Sumar konur óttast svo mjög að greinast með brjóstakrabbamein að þær fara ekki í krabbameinsskoðun, en því fyrr sem þú ferð í skoðun, þeim mun fyrr veistu hvernig staðan er. Láttu aldrei ótta koma í veg fyrir að þú takir rétta ákvörðun þegar heilsa þín er annars vegar.

  • Óttinn við að sjúkdómurinn taki sig upp

    Hafir þú greinst með sjúkdóminn eru áhyggjuefni þín af allt öðrum toga. Þú hefur þá að öllum líkindum þegar farið í ýmsar meðferðir og nú er fylgst náið með þér til að ganga úr skugga um að þú sért heil heilsu og laus við merki um að sjúkdómurinn hafi tekið sig upp. Í þessum sporum ertu augljóslega tilbúin að gera allt sem í þínu valdi stendur til að minnka líkur á að fá aftur krabbamein.

  • Að lifa með dreifðu krabbameini

    Hafi sjúkdómurinn tekið sig upp eða dreift sér, hefurðu ef til vill áhyggjur af því hvaða rannsóknir þú þarft að fara í eða hvers konar meðferð bíður þín, hvort meðferðin sem þú ert í núna muna virka eða á hvaða meðferðum þú kunnir að þurfa á að halda síðar meir.  

  • Að minnka líkur á brjóstakrabbameini

    Hvernig veistu hvort þú ert að gera allt sem þú getur til að draga sem mest úr líkum á brjóstakrabbameini? Geturðu eitthvað gert til að minnka líkurnar enn frekar? Kynntu þér það í kaflanum Minnkaðu líkurnar. 

  • Er þetta fyrsta heimsókn þín á brjostakrabbamein.is?

    Á þessum vef geturðu fundir upplýsingar um hvaðeina sem þú kannt að vilja vita eða hefur áhyggjur af í sambandi við brjóstakrabbamein. Upplýsingarnar sem þú finnur hér eru áreiðanlegur og settar fram á einföldu máli. Þær geta hjálpað þér til að stíga mikilvæg skref í þá átt að vernda heilsuna.