Stuðningur og endurhæfing á LSH


Á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi (LSH) er margs konar þjónusta í boði sem getur stuðlað að bættri líðan sjúklinga sem greinast með brjóstakrabbamein (og aðra alvarlega sjúkdóma) og aðstandendur þeirra.

SJÚKRAÞJÁLFUN

Í sjúkraþjálfun á Hringbraut er boðið upp á heilsurækt í tækjasal undir eftirliti sjúkraþjálfara á Endurhæfingardeild (14 D) á 4. hæð í tengibyggingu. Nánari upplýsingar veitir móttökuritari í síma 543 9300.

Í sundlauginni á Grensási er boðið upp á hópþjálfun í laug á mánudögum og miðvikudögum kl. 14.45-15.15. Upplýsingar veitir afgreiðsla sundlaugar í síma 543 9319. HÓPÞJÁLFUN Í VATNI er fyrir einstaklinga sem hafa greinst með krabbamein. Þjálfunin fer fram í sundlaug endurhæfingardeildarinnar á Grensási og er bæði ætluð þeim sem eru í meðferð og þeim sem hafa lokið henni. Liðkandi æfingar, léttar þolæfingar, vöðvateygjur og slökun í 30 mínútur í umsjón sjúkraþjálfara/íþróttakennara. 

Hentar ekki þeim sem eru í geislameðferð. Aðgangseyrir er að lauginni. 

Sogæðabjúgur er sérstakt vandamál hjá mörgum konum sem hafa glímt við brjóstakrabbamein. Þjónusta við þennan hóp var áður í Sjúkraþjálfun í Fossvogi. En er þar ekki lengur. Þeir sem bjóða upp á slíka þjónustu eru Ljósið endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir þá sem fengið hafa krabbamein og Bati sjúkraþjálfun. 

Ljósið heimasíða : http://ljosid.is/


Hjá  Bata sjúkraþjálfun  í Húsi verslunarinnar starfar öflugur hópur sjúkraþjálfara sem hefur sérmenntun og sérhæfingu í að taka á móti konum með sogæðabjúg eða  stoðkerfisvandamál eftir krabbameinsmeðferð. Kynnið ykkur málið.

Heimasíða Bata er hér:  http://bati.is/ 

brjostakrabbi

SÁLFRÆÐIÞJÓNUSTA

Sálfræðingar starfa á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi, og er hægt að leita eftir ráðgjöf og meðferð varðandi ýmis mál sem koma upp og einstaklingur hefur þörf fyrir að ræða. Margir nýta sér viðtal við sálfræðing fljótlega eftir greiningu krabbameins, aðrir þegar líður á meðferðina og enn aðrir fljótlega eftir að meðferð lýkur. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl og -meðferð og getur hluti hennar farið fram með maka og/eða öðrum aðstandendum.

Dæmi um atriði sem sálfræðingarnir sinna:

  • Mat á líðan og tilfinningalegri stöðu.

  • Vinna með áföll sem kunna að koma upp í veikindunum.

  • Aðstoð við ýmsar afleiðingar veikindanna.

  • Vinna með viðhorf sem auðvelda aðlögun að breyttum aðstæðum.

  • Kennsla í slökun og streitustjórnun.

  • Meðferð við kvíða og depurð.

  • Aðstoð við að skoða og breyta hegðunarmynstri.

  • Aðstoð í samskiptaerfiðleikum.

  • Stuðningur við aðstandendur.

Viðtöl við sálfræðing má fá fyrir milligöngu læknis, hjúkrunarfræðings og/eða félagsráðgjafa LSH.

brjostakrabbi

FÉLAGSRÁÐGJÖF

Helsta verkefni félagsráðgjafa er að aðstoða einstklinga við að takast á við áfall og breytingar á aðstæðum í framhaldi af greiningu alvarlegs sjúkdóms. Allir þurfa að vera sér meðvitaðir um félagsleg réttindi er varða veikindi og breytta stöðu. 

Félagsráðgjafar aðstoða við að tengja einstaklinginn þeim hjálparkerfum sem við eiga hverju sinni. 

Félagsráðgjafi veitir stuðningsviðtöl þegar vinna þarf úr sorg og áföllum eða þegar vandamál  tengd veikindunum hafa komið upp í fjölskyldunni. Fjölskyldubrú er sértæk þjónusta sem félagsráðgjafar á krabbameinsdeildum  LSH bjóða upp á fyrir foreldra og börn þeirra með sérstaka áherslu á líðan barna. 

Félagsráðgjafar koma að gerð áætlana um endurhæfingu og fylgja þeim eftir. Þeir aðstoða við að byggja upp þrótt til betra lífs þrátt fyrir langvinnan sjúkdóm Einnig veita þeir einstaklingum og fjölskyldum ráðgjöf og stuðning við lífslok.

 Félagsráðgjafar eru hluti af meðferðarteymi sjúklings og hægt er að fá beint samband við félagsráðgjafa á LSH í s. 543-1000.  Einnig er hægt að ræða við og   fá aðstoð og  milligöngu annars heilbrigðisstarfsfólks (hjúkrunarfræðinga, lækna, iðju- og sjúkraþjálfara)  til þess að fá viðtal hjá félagsráðgjafa. 

brjostakrabbi

SLÖKUNARMEÐFERÐ

Í boði er slökunarmeðferð undir leiðsögn hjúkrunarfræðings. Um er að ræða einkatíma fyrir sjúklinga og/eða ættingja þeirra, kennd undirstöðuatriði í slökun og unnið að markmiðum eins og að draga úr ógleði, verkjum, kvíða eða búa fólk undir lyfjameðferð, allt eftir því sem hver og einn þarfnast.

Slökunarmeðferð er samheiti fyrir margs konar meðferðir þar sem huganum er beitt til að hafa áhrif á líkamlega og andlega líðan. Meðal aðferðanna eru vöðvaslökun, dáleiðsla, sjónsköpun og öndunaræfingar. Lögð er áhersla á að KENNA slökunina þannig að fólk geti bætt líðan sína sjálft. Um allar þessar aðferðir má lesa nánar hér.

Frekari upplýsingar eru veittar á deild 11-B á LSH við Hringbraut og má bóka tíma hjá hjúkrunarfræðingum og riturum deildarinnar.

                                                                                                  brjostakrabbi

SÁLGÆSLA PRESTA OG DJÁKNA

Sálgæsla felst í að gæta að sálarheill fólks, sinna andlegum og trúarlegum þörfum þess og styðja það í raunum. Hafa má samband við prest með því að tala við hjúkrunarfræðing eða ritara deildarinnar milli klukkan átta og fjögur. Utan þess tíma er hægt að hafa samband í skiptiborði LSH 543 1000 sem veitir upplýsingar um vaktsíma. Prestur eða djákni er á vakt allan sólarhringinn, allt árið um kring.

Allir skjólstæðingar og starfsmenn LSH hafa aðgang að presti/djákna og fyllsta trúnaðar er gætt.

ÞB