Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélags Íslands

Krabbameinsfélag Íslands var stofnað árið 1951. Þá voru aðildarfélögin þrjú en nú eru þau 30, bæði svæðafélög og stuðningshópar sjúklinga.

Tilgangur félagsins er að styðja og efla í hvívetna baráttuna gegn krabbameini, svo sem með því að stuðla að þekkingu og menntun um krabbamein og krabbameinsvarnir, efla krabbameinsrannsóknir, m.a. með söfnun og vísindalegri úrvinnslu upplýsinga, beita sér fyrir leit að krabbameinum á byrjunarstigi og styðja framfarir í meðferð krabbameina og umönnun krabbameinssjúklinga.

Á heimasíðu krabbameinsfélagsins má sækja margs kyns fróðleik um félagið, starfsemi þess, aðildarfélög, styrktarhópa og margt fleira.

Ráðgjafaþjónusta Krabbameinsfélags Íslands var opnuð í nóvember 2007 fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur þeirra í húsnæði krabbameinsfélagsins. Á heimasíðu er að finna eftirfarandi orð:

Markmið Ráðgjafarþjónustunnar er að aðstoða fólk við að ná jafnvægi í lífinu eftir þær breyttu aðstæður sem greining krabbameins veldur. Hjá Ráðgjafarþjónustunni er boðið upp á fræðslu, viðtöl, faglega ráðgjöf, djúpslökun, ýmis námskeið og hagnýtar upplýsingar um réttindi fólks með krabbamein.

Ráðgjafarþjónustan er í húsi Krabbameinsfélags Íslands að Skógarhlíð 8, fyrstu hæð. Opið kl. 9-16.00  alla virka daga. Auk þess eru fundir og námskeið á daginn, á kvöldin og um helgar. Sett hefur verið upp hágæða hljóð- og upptökukerfi þannig að fyrirlestrar og annað sem fram fer, verður nú AÐGENGILEGT Á NETINU.

Þú átt þess kost að hitta hjúkrunarfræðing, félagsráðgjafa, fleiri fagaðila eða aðra sem hafa gengið í gegnum svipaða reynslu og þú. Boðið er upp á viðtöl, faglega ráðgjöf, sjálfshjálparhópa, námskeið, hagnýtar upplýsingar, aðgang að tölvum og prentara, heimilislegt húsnæði og hressingu.

Öll þjónusta er án endurgjalds