Ljúfar myndir

A Matter of Life and Death (1946)
Höfundar:
Michael Powell og Emeric Pressburger. Aðalhlutverk: David Niven, Kim Hunter, Roger Livesay.
Þeir Powell (leikstjórinn) og Pressburger (handritshöfundurinn) eru einhverjir mestu orginalar kvikmyndanna, flestar mynda þeirra eru dýrindis djásn og þessi fremst meðal jafningja. Hér rennur veruleikinn saman við fantasíuna í kómískri og hugljúfri ástarsögu. Niven leikur flugmann í seinna stríði sem nær sambandi við unga stúlku í nálægri herstöð meðan flugvél hans hrapar til jarðar. Stúlkan finnur flugmanninn og þau fella hugi saman. Babb kemur í bátinn þegar engill nokkur birtist flugmanninum og tilkynnir honum að gleymst hafi að pikka hann upp, enda stríð í gangi og miklar annir.
Flugmaðurinn unir þessu ekki, enda ungur og ástfanginn og fær því framgengt að réttað verði í máli hans á himnum. Upphefst þá hin kostulegasta saga þar sem tilfinningar og kaldar staðreyndir takast á. Heill og hamingja er í húfi, er ástin sterkari en dauðinn? Maður er allt í senn, hlæjandi, grátandi og uppspenntur. Powell og Pressburger eru galdramenn sem draga hverja kanínuna á fætur annarri uppúr hatti sínum og tekst stöðugt að koma manni á óvart. (Ásgrímur Sverrisson)

Allar myndir eftir sögum Jane Austen

Amelie
Leikstjórn: Jean-Pierre Jeunet. Aðalleikkona: Audrey Tautou.
Myndin fjallar um ungu stúlkuna Amélie sem elst upp hjá sérkennilegum foreldrum. Hún verður fyrir því óláni að missa móður sína mjög ung og þegar hún hefur loks aldur til flyst hún að heiman og fer að vinna á kaffihúsi í París. Sagan fjallar svo um tilraunir hennar til að gleðja aðra um leið og hún leitar eftir fyllingu í sitt eigið líf. Þegar hún telur sig hafa fundið það sem gæti glatt hana getur hún hins vegar ekki reynt að ná því á einfaldan hátt og þá upphefst áætlanagerð hjá þessari útsjónarsömu ungu konu sem vill öllum vel ef þeir eiga skilið að vel sé komið fram við þá. Myndin er mjög sérstök eins og þeir sem hafa séð fyrri verk Jeunet geta ímyndað sér. Sagan er afar áhugaverð, mjög fyndin og sérlega hrífandi í senn. Leikararnir standa sig allir með stakri prýði og þó sérstaklega hin frábæra Tautou í hlutverki Amelie. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að hér sé komin "feel-good" mynd ársins 2001 og það er aðeins harðbrjósta og bölsýnt fólk sem mun geta gengið út af þessari mynd án þess að brosa. - (Guðjón Helgason)

Before sunrise
Myndin fjallar um bandarískan strák, Jesse, og franska stúlku, Celine, sem hittast í lest. Þau ná ótrúlega vel saman og eyða einni nótt saman, röltandi um götur Vínarborgar. Handritið framúrskarandi og stemmingin í myndinni einstök.

Before Sunset
Leikstjórn:
Richard Linklater
Handrit: Richard Linklater, Kim Krizan, Julie Delpy og Ethan Hawke
Leikarar: Julie Delpy og Ethan Hawke
Níu ár liðin frá því Jesse og Celine hittust í Vínarborg og eyddu þar saman rómantískustu nótt ævi sinnar. Nú hittast þau aftur þar sem Jesse er að kynna nýja skáldsögu eftir sig sem fjallar um nótt þeirra forðum. Jesse þarf að fara upp á flugvöll eftir klukkustund og því hafa þau aðeins stuttan tíma til að ræða um allt það sem hefur gerst síðan þau hittust síðast. Galdur myndarinnar felst í kvikmyndatökunni, samtölunum og stórkostlegum leik Julie Delpy og Ethan Hawke. Myndin er sjálfstætt framhald af Before Sunrise (1995).


Billy Elliot
Leikstjórn:
Stephen Daldry. Handrit: Lee Hall. Leikarar: Jamie Bell, Gary Lewis, Jamie Draven, Julie Walters, Jean Heywood, Stuart Wells og Nicola Blackwell.

Myndin hefst í Norður-Englandi árið 1984 og segir frá 11 ára syni námumanns. Drengurinn heitir William Elliot en er alltaf kallaður Billy. Hann býr með föður sínum sem er ekkjumaður og eldri bróður. Einn daginn rekst Billy inn í ballettíma á leið sinni í box. Ballettkennarinn frú Wilkinson er móðir stúlku, Debbiar sem Billy þekkir og einhvern veginn dregst Billy inn í æfinguna. Frú Wilkinson kemur strax auga á hæfileika Billy í ballett. Henni tekst að telja Billy á að byrja að æfa.

Billy leynir því fyrir föður sínum og bróður sem reynist ekki erfitt fyrst um sinn þar sem þeir eru í verkfalli og alltaf á fullu að mótmæla verkfallsbrjótum. Loks kemst faðir hans að sannleikanum og bannar honum að halda áfram. Frú Wilkinson er ekki á sama máli og tekur Billy í einkatíma til þess að undirbúa hann undir inntökupróf í Konunglega ballettskólann í London án vitundar föður hans. Greyið Billy sem þykir ekkert skemmtilegra en að dansa vill ekki bregðast föður sínum og enginn styður hann nema frú Wilkinson. Ég vil nú ekki kjafta frá endinum en mæli eindregið með þessari fyndnu og hugljúfu mynd.
(Berglind Sunna Stefánsdóttir)


Börn náttúrunnar (1991)
Leikstjórn. Friðrik Þór Friðriksson
Þessi dáðasta mynd íslenskrar kvikmyndasögu er látlaus en sterk frásögn af gömlu fólki sem hnígur til síns uppruna. Eftir sterka opnunarsenu, þar sem hver einasti myndrammi lítur út eins og helgimynd, dettur sagan svolítið niður þegar gamli bóndinn heldur til borgarinnar, enda er fólkið þar teiknað tvívíðum og grófum dráttum. En allt er fyrirgefið þegar gamla parið strýkur af elliheimilinu og heldur á vit heimkynna sinna. Eftir það er myndin samfelldur unaður, ómótstæðileg blanda af söknuði, þrautseigju, tilhlökkun og reisn - ofinn í feld lágstemmdrar kímni og væntumþykju. Hún tekur á sig goðsagnakenndan blæ, þetta er ferðalag inní eilífðina, varðað skýrum
kennileitum sem vísa hinu aldraða pari leiðina heim. Friðrik Þór þekkir sitt fólk... (Ásgrímur Sverrisson)


Babettes gæstebud (1987)
Leikstjórn: Gabriel Axel
Handrit: Byggt á sögu eftir Karen Blixen
Dásamlega látlaus, einföld og töfrandi tragi-kómedía um kraftaverk, kærleika og yfirbót. Tvær dyggðugar prestsdætur í Jótlandi nítjándu aldar feta hinn þrönga stíg guðsótta og góðra siða. Þegar þær taka að sér flóttakonu frá París reynir þó fyrst á trú þeirra því hún, Babetta, reynist ekki öll þar sem hún er séð. Það er hægt að njóta þessarar myndar á ýmsa vegu, sem allegóríu, matreiðslukennslu eða mixtúru við þunglyndi. Hér takast á breyskar sálir og sterkar og á þig leita áleitnar spurningar um hvert þinni för sé heitið og til hvers. Tónninn er meinfyndinn en áreynslulaus enda varð þessi mynd 'sígild' á svipstundu og hlaut meðal annars óskarsverðlaunin sem besta erlenda myndin. (Ásgrímur Sverrisson)


Local Hero (1984)
Leikstjóri: Bill Forsyth. Aðalhlutverk: Peter Riegert, Burt Lancaster, Peter Capaldi.
Ein af mínum helstu uppáhaldsmyndum. Fulltrúi olíufyrirtækis í Texas er sendur í skoskt sjávarþorp til að kaupa það með húð og hári fyrir olíuhreinsunarstöð. Þorpsbúar beita ýmsum brögðum til að fá gott verð en fyrirstaða birtist í gömlum karli sem á strandlengjuna sjálfa og býr þar í kofa. Ekki bætir svo úr skák að olíumaðurinn fær guðdómlega kraftbirtingu á staðnum sem ruglar hann gersamlega í ríminu. Hér er lítið um fíflagang, pínulítið þó, en þess meira um dásamlegan og léttleikandi húmor sem sprettur mjög eðlilega af fjölbreyttri flóru persóna. Um leið er hún seiðandi kyrrlát og tekur sér tíma til að sýna þér að undur veraldar er að finna á ólíklegustu stöðum. Maður vill eiginlega ekki að myndin hætti, svo töfrandi er þessi heimur að helst óskar maður sér þangað sem fljótast. (Ásgrímur Sverrisson)


Ma Vie en rose
Leikstjórn:
Alain Berliner. Aðalhlutverk: Michele Larouque, Jean-Philippe Ecoffey, Georges Du Fresne.
...Belgíska/franska myndin Líf mitt í bleiku tekur upp spurninguna um kynhlutverk og samkynhneigð og staðsetur hana í bernsku en ekki kynþroska eins og hefðbundnara þykir. Sjö ára Ludovic heldur að hann sé bara tímabundið fastur í sínum drengslíkama, og að þetta sé nokkuð sem hann vex uppúr þegar hann stækkar; þá verði hann kona og geti gifst vini sínum. En hinn borgaralegi veruleiki leyfir ekki slíka blekkingu og Ludo verður að horfast í augu við að kyn hans er ekki breytilegt og að smáborgarinn hefur takmarkaða þolinmæði fyrir strákum í stelpufötum. Mikil áhersla er lögð á hið myndræna sem er sérlega skemmtilega útfært, en þarna er á ferðinni markviss leikur með liti og hálf-fantastískan úthverfisveruleika, sem fenginn er að láni úr smábæjarstemningu Tim Burtons. Til hliðar við úthverfisveruleikann er svo Barbíheimur sem er fullkomlega fantastískur (þarsem Barbí svífur um sem engill/góð norn), en í vitund barnsins renna þessir tveir heimar saman, þar til hann uppgötvar hinn hræðilega sannleika, en þá verða litaskil, þarsem litskær Barbíheimurinn fjarlægist og úthverfið gránar. Með þessu vel heppnaða samspili efnis og stíls tekst leikstjóranum Alain Berliner að skapa mynd sem er ekki síður skemmtileg en áhugaverð og ánægjulega laus við þreytandi boðskap og þvingandi raunsæi. (Úlfhildur Dagsdóttir)


Miracle at 34th Street (1994). Leikstjórn: Les Mayfield
Handrit: George Seaton og John Hughes, byggt á gamalli samnefndri kvikmynd frá árinu 1947 sem gerð var af George Seaton eftir sögu Valentine Davies. Leikarar: Richard Attenborough, Elizabeth Perkins, Dylan McDermott, Mara Wilson, J T Walsh, James Remar, Robert Prosky og Joss Ackland
Hin sex ára gamla Susan (Mara Wilson) á þá ósk heitasta á jólunum að eignast föður, bróður og hús. Þegar jólasveinn (Richard Attenborough) þakkargjörðarskrúðgöngu Cole´s verslunarkeðjunnar blikkar til hennar auga, ögrar hann efasemdum hennar um tilvist jólasveinsins og fyllir hjarta hennar von um að hann geti gefið henni í jólagjöf það sem hjarta hennar þráir mest. Susan sem hafði sætt sig við að draumur hennar ætti einungis heima á ljósmynd í lokuðu skríni, sér brátt að trúin ein getur látið óskir rætast. (Erla Björk Jónsdóttir)

It's a Wonderful Life (1946)
Leikstjóri: Frank Capra. Aðalhlutverk: James Stewart, Donna Reed, Lionel Barrymore.
Þessi hjartnæma og magíska fantasía segir af örvæntingarfullum manni sem í gegnum guðlega forsjón fær tækifæri til að sjá hvers virði hann er samfélagi sínu. Capra svífst hér einskis til að telja okkur trú um mikilvægi fjölskyldugilda og samlíðunar og tekst svo vel upp að myndin er án efa hans besta verk sem og Stewarts. Hér takast á draumar gegn vonbrigðum, réttlæti gegn kúgun, vonin gegn svartnættinu og jafnvel tíminn sjálfur leggur lykkju á leið sína svo söguhetjan George Bailey megi finna sjálfan lífsins tilgang og fyrirheit. Það sem skilur hana frá flestum fjögurra vasaklúta myndum er að hún fær þig til að vikna yfir gleðistundum persónanna en ekki þeim harmrænu.

(Ásgrímur Sverrisson)

A room with a view (rómantísk)

Saving Grace

Mary and Tim

Unconditional Love

Love Actually
Leikstjórn: Richard Curtis. Handrit: Richard Curtis
Leikarar: Bill Nighy, Gregor Fisher, Colin Firth, Liam Neeson, Emma Tompson.
Myndin fjallar um líf átta mjög ólíkra para í Lundúnum á Englandi og hvernig þau takast á við ástarlíf sitt í ólíkum aðstæðum. Sögur þeirra fléttast saman á ólíkan hátt á hinum annasömu vikum fyrir jólin.

Love Actually er vel gerð mynd þar sem helstu leikarar Breta fara með aðalhlutverkin og standa þeir undir væntingum. Hugh Grant er sérstaklega góður sem hinn sjálfmeðvitaði forsætisráðherra og fer á kostum í dansatriðinu. Emma Tompson fer vel með vandasamt hlutverk heimavinnandi húsmóður, Karen að nafni, sem þarf að horfast í augu við að eiginmaður hennar er að leiðast út í framhjáhald. Bill Nighy fer á kostum sem hinn óútreiknanlegi rokkari Billy Mack. Laura Linney leikur hina meðvirku Söru einkar vel, þannig að áhorfandinn finnur sérstaklega til með henni. Andrew Lincoln skilar góðri túlkun á Mark sem mun aldrei fá sína heitt elskuðu þar sem hún er gift besta vini hans. Og Rowan Atkinson sem leikur skartgripasalann Rufus kemur skemmtilega á óvart. Annars standa leikararnir sig almennt vel, sem skiptir miklu máli þar sem aðalhlutverkin eru svo mörg í myndinni, en einnig fyrir heildarupplifun áhorfandans. (Jódís Káradóttir)

Heimsókn hljómsveitarinnar

Leikstjóri: ERAN KOLIRIN
Ísrael / Frakkland
0 mm, 2007, 84 min.
Heimsókn hljómsveitarinnar er lítillát kvikmynd um mannleg samskipti á meðal fólks sem hefur aldrei hist áður en á ýmislegt sameiginlegt, jafnvel þótt það liggi ekki í augum uppi. Kvikmyndin er nokkurs konar óður til einfaldari tíma og býður upp á þægilega hvíld frá hraða og áreiti samtímans. Lítil egypsk lögregluhljómsveit ferðast til Ísrael að halda tónleika við menningarlega opnunarathöfn. Þegar þangað er komið tekur enginn á móti þeim við flugvöllinn. Þeir reyna að redda sér sjálfir og enda á röngum stað í litlum, afskekktum bæ í eyðimörkinni. Týnd hljómsveit í gleymdum bæ. Það muna ekki margir eftir þessu atviki, enda var svo sem ekkert merkilegt við það.

ÞB