Heilun

  • Heilun eða handayfirlagningu (therapeutic touch) er hægt að framkvæma í hjúkrun þegar snerting er ekki ákjósanleg eins og t.d. þegar miklir verkir eða ógleði eru til staðar og sjúklingur vill ekki láta snerta sig.

  • Dr. Dolores Krieger er bandarískur núlifandi hjúkrunarfræðingur sem hefur unnið árum saman og e.t.v. mest allra að því að hreinsa burt leyndardóma, þekkingarskort og þröngsýni þeirra sem hafa haldið að heilun tilheyrði fámennum útvöldum hópi heilara og opnað hana öllum til aðgangs sem áhuga hafa.

  • Einnig hefur hún með rannsóknum sínum og kennslu um árabil varpað ljósi á mikilvægi samvinnu milli snertingar eða handayfirlagningar og læknisfræði og hjúkrunar.

  • Fræði hennar og kennsla til hjúkrunarfræðinga og lækna hafa laumað sér inn á hinar ýmsu stofnanir um gjörvallan heiminn. Meðal annars var fyrstu bókinni hennar ­The Therapeutic Touch: How to use yur Hands to Help or to Heal, smyglað til gömlu Sovétríkjanna þar sem hún fór beint í undirheimapressuna, var þýdd, vélrituð og ljósrituð og gekk á milli manna.

  • Nýjasta bókin hennar frá 1993 heitir: Accepting Your Power to Heal. The Personal Practice of Therapeutic Touch. (Bear & Company, Inc.).

Textinn hér að ofan eru brot úr grein Hrundar Helgadóttur, hjúkrunarfræðings og nuddfræðings sem birtist í 20 ára afmælisriti Félags íslenskra nuddara árið 1994. Hafir þú áhuga á að nálgast ritið er hugsanlega hægt að fá það lánað á næsta bókasafni eða hafa samband við Félag íslenskra heilsunuddara til að fá það sent. Hrund hefur veitt góðfúslegt leyfi sitt til að birta þetta hér á vefnum.

Þar sem grein Hrundar var skrifuð fyrir rúmum áratug er rétt að bæta hér við nýlegum upplýsingum:

  • Dolores Krieger, Ph.D., R.N. er nú látin, en hún var heiðursprófessor í hjúkrun við New York University og höfundur fimm bóka um lækningar án inngrips (non-invasive). Í kjölfar athugana sinna á áhrifum heilunar sem hún var brautryðjandi í á 8. áratug síðustu aldar sneri hún sér að því að kenna starfsfólki í heilbrigðisstéttum og leikmönnum hinar nýju aðferðir sínar. Nemendur hennar eru nú orðnir um 42 þúsund talsins. Engin leið er að segja til um fjölda þeirra sem hafa lesið bækur hennar og tileinkað sér aðferðir hennar með því móti. Síðasta bókin sem hún skrifaði heitir The Spiritual Dimension of Therapeutic Touch. Meðhöfundur hennar að þeirri bók er Dora Kunz. Meira á http://www.pumpkinhollow.org.

ÞB