Nudd


Eftirfarandi upplýsingar er að finna í bæklingnum HEILSUNUDD sem gefinn er út af Félagi íslenskra heilsunuddara undir fyrirsögninni Heilsunudd er heilsubót og gerir í fáum orðum grein fyrir helstu tegundum nudds.

HEILSUNUDD er yfirgripsmikið því það nær yfir margar og mismunandi aðferðir sem koma frá öllum heimshornum. Fyrir þeim eru ævaforn gildi sem fylgt hafa mannkyni í gegnum aldir og árþúsundir. Fjölbreytileiki heilsunudds er ótvírætt kostur og heilsunuddarar eru með ólíkar áherslur við meðhöndlun. Einnig er tekið mið af einstaklingnum hverju sinni enda ákaflega misjafnt hvað hentar hverjum og einum.

Heilsunudd hentar öllum óháð kyni, aldri eða þjóðerni. Nudd mýkir vöðva og eykur hreyfigetu líkamans, hjálpar til við losun úrgangsefna, örvar blóðflæði og súrefnisflæði, gefur góða slökun og streitulosun, er frískandi, endurnærandi og jafnvægisstillandi. Innan heilsunudds er að finna ýmsar aðferðir:

Klassískt nudd er samheiti á ýmsum formum vöðvanudds þar sem leitast er við að mýkja vöðva og ná fram slökun. Notaðar eru fjölbreyttar nuddstrokur með léttum og djúpum þrýstingi og þannig stuðlað að aukinni hreyfingu blóðrásar og sogæðavökva. Margar leiðir eru færar til að útfæra klassískt nudd en markmiðin og grunnhugsunin er alltaf sú sama. Mismiklum þrýstingi er beitt á vöðva og nuddað í átt að miðju líkamans þar sem útskilnaður fer fram en lausum strokum sem hafa meira með slökun að gera er oftast beitt frá miðju til útlima.

Svæðanudd er nuddform sem byggir á þeirri kenningu að í fótum og höndum, nefi og eyrum séu svæði og punktar sem tilheyra ákveðnum líffærum og líkamspörtum. Líkamanum er skipt kerfisbundið í ákveðin svæði sem eru kortlögð sem áhrifasvæði. Algengast er að beita aðferðinni á fætur með því að þrýstinudda þessi áhrifasvæði og ná þannig fram örvun eða slökun eftir því sem við á. Svæðanudd er heildrænt meðferðarform sem stuðlar að jafnvægi. Einnig gagnast vel að nota svæðanudd með öðrum nuddformum.

Heildrænt nudd gengur út frá því að hugur, líkami og sál séu ein heild og stuðla þannig að heildrænni hugsun einstaklingsins, auka meðvitund og hvetja til samspils orku og efnis. Heildrænt nudd er óbundið að formum en viðmiðið er ávallt að mæta þörfum nuddþega hverju sinni sem geta verið ákaflega breytilegar. Heildrænt nudd miðar að því að greina orsök og vinna með afleiðingar, vinna út frá kjarnanum, uppsprettunni og stuðla þannig að jafnvægi. Tilgangurinn er að fara þá leið í lífinu að byrja á því að vera yfir í það að gera og enda á því að hafa.

Íþróttanudd er hefðbundið strokunudd sem er sérhæft fyrir íþróttafólk. Það hentar vel bæði fyrir keppnisfólk og þá sem æfa sér til heilsubótar. Íþróttanudd frískar og mýkir vöðva, einnig er lögð áhersla á upphaf og festur vöðva við liðamót. Markmiðið er að reyna að koma í veg fyrir álagsmeiðsli með mýkingu vöðva og auðvelda losun úrgangs úr þeim og upptöku næringarefna. Vöðvateygjur eru nauðsynlegur þáttur í æfingum íþróttafólks. Rétt teygður líkami er betur búinn undir átök og minni líkur eru á álagsmeiðslum.

Kinesiology er unnin út frá sömu lögmálum og kínverska nálastungukerfið byggist á. Stuðst er við þá kenningu að hægt sé að hafa áhrif á orkuflæði líkamans með punktanuddi. Áhersla lögð á kínversk náttúruvísindi (TCM), hugmyndafræðina bak við yin og yang, elementin fimm, legu og virkni orkubrautanna fjórtán sem liggja um líkamann og sérhæfð vöðvatest. Miðað er við heildræna hugsun; hver og einn er hugur, líkami og sál, að heilbrigðið komi innan frá. Vera til staðar, vakna til meðvitundar og upplifa þessa þætti sem órjúfanlega heild sem vinnur saman að bættri heilsu og aukinni vellíðan.

Triggerpunktameðferð er markviss og áhrifarík við verkjum í vöðvum. Stuðst er við kortlagningu triggerpunkta sem gerð hefur verið af mannslíkamanum. Ekki er alltaf hægt að meðhöndla verk frá triggerpunkti með því að vinna á vöðva þar sem verkinn er að finna því hver punktur getur leitt bæði til nær- og fjærliggjandi svæða. Triggerpunktameðferð beinist að því beita þrýstingi á þá punkta sem valda verknum til að losa þá, yfirleitt eru þeir sárir. Einnig er notast við nudd, hitameðferð, kælimeðferð og teygjur.

Sogæðanudd er kerfi nuddstroka sem miðast við að örva og styrkja sogæðakerfi líkamans. Notaðar eru léttar strokur til að færa sogæðavökva að næsta eitlakerfi til hreinsunar. Aðalávinningur nuddsins er að hraða hreinsun úrgangsefna úr líkamanum, vinna gegn óæskilegri vökvasöfnun ásamt því að gefa góða slökun. Sogæðakerfið hefur ekki dælu eins og blóðrásarkerfið heldur er flæði þess háð hreyfingu nærliggjandi vöðva og líffæra. Mikið álag og kyrrstöður skerða afköst sogæðakerfisins.

Ilmolíufræði. Ilmolíur eru unnar úr hreinum ilmkjörnum plantna sem hafa verið einangraðir með nákvæmum aðferðum. Ilmur þeirra og mýkt örva skynfærin og virk efni þeirra fara gegnum húðina, þannig í blóðrás og sogæðakerfi og auka þar með virkni meðferðarinnar. Alltaf þarf að blanda þær í réttu hlutfalli við aðrar olíur eða krem til að tryggja öryggi við notkun og til að ná fram hámarksvirkni. Blöndun miðast við þarfir hvers og eins hverju sinni. Olíurnar geta verið ofnæmisvaldandi og ætti því að gæta varkárni við notkun þeirra.

Félagi íslenskra heilsunuddara

brjostakrabbibrjostakrabbibrjostakrabbi

VARÚÐ

  • Þegar sjúklingar eru með krabbamein og hafa meinvörp í beinum er best að gefa mjög léttar mjúkar strokur og jafnvel sleppa því alveg þar sem beinameinvörpin eru vegna hættu á brotum. Einnig á að fara varlega ef sjúklingar eru með krabbamein í eitlum. Ekki má nudda húðsvæði sem verið er að gefa geislameðferð á. Þessi svæði þola ekki olíu, sápu né neitt annað en hreint vatn.

Hrund Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur

brjostakrabbi

  • Nudd er mjög góður valkostur í meðferð við sjúkdómum ásamt hefðbundinni læknisfræði og hjúkrun. Áhrif nudds á líkamann, ásamt hinum andlegu og sálrænu áhrifum þess getur auðveldlega framkallað mikla vellíðan sem skiptir sköpum fyrir velferð sjúklinganna hvar sem þeir eru niðurkomnir, á stofnunum eða í heimahúsum. Líkamleg og andleg vellíðan skiptir miklu máli fyrir það hversu líkaminn er fljótur að græða sig eftir sjúkdóma. Fjöldi annarra þátta eins og t.d. mataræði og hreyfing hafa áhrif á endurbatann hvort sem hann er algjör eða tímabundinn. Þessir þættir eru oft mjög einstaklingsbundnir og ekki síður mikilvægir en hinar hefðbundnu meðferðir. Hægt er að beita ýmsum aðferðum til viðbótar gegn streitu. Má þar helst nefna slökun, dáleiðslu, sjónsköpun, hugleiðslu, sjálfshjálparhópa, myndþjálfun og margt fleira sem fólk notar til að slaka á og láta sér líða vel, sem lið í að meðhöndla það sem aflaga hefur farið í starfsemi líkama og/eða sálar.

  • Við höfum öll mikla þörf fyrir snertingu og er sú þörf óháð aldri, stétt og stöðu. Snerting er almennt ekki tíðkuð í þjóðfélagi okkar í dag nema um sé að ræða börnin okkar, maka eða gæludýr. Við erum því flest ekki vön að snerta mikið annað fólk, nema í mesta lagi með handarbandi eða klappi á öxl. Það er hins vegar viðurkennt að hjúkrunarfræðingar hafa stöðu sinnar vegna leyfi til að snerta sjúklinga sína langt umfram það sem gerist og gengur á öðrum vettvangi í þjóðfélagi okkar hér á Íslandi. Einmitt þess vegna erum við í lykilaðstöðu til að bæta nuddi inn í hjúkrun. Ég tel að það hjálpi ekki einungis sjúklingum okkar á ýmsan hátt heldur einnig hjúkrunarstéttinni sem heild því góð þekking á nuddi og snertingu í hjúkrun mun auka stórlega gæði allrar hjúkrunar.

  • [...] Kærleiksríkt, gefandi slökunarnudd er eitthvað sem augljóslega getur hjálpað. [...] Einnig þarf að fá lærða nuddara til aukins samstarfs á deildum og stofnunum þar sem sjúkir liggja til meðhöndlunar eða langtímavistunar og í heimahúsum þar sem heimateymi og aðstandendur annast umönnun þeirra.

  • Nudd er [...] viðurkennt meðferðarform í margar aldir og allir hafa heyrt á það minnst og margir reynt.

  • Ég hef sjálf nær eingöngu notað nuddið við hjúkrun krabbameinssjúklinga í heimahúsum oftast með mjög góðum árangri, stundum minni, en alltaf einhverjum. Þeir krabbameinssjúklingar sem ég hef með að gera eru allir mikið veikt fólk með dreifðan og oft langt genginn sjúkdóm. Vandamál þeirra eru ekkert síður andlegs eðlis en líkamlegs. Fyrir þá hefur nuddið ótrúlega góð áhrif til vellíðunar. Þessi vellíðan sem kemur í kroppinn, virðist ná inn í sálina og endist oft fram undir kvöld og inn í svefninn.

  • Mikilvægt er að kenna aðstandendum strokur og hvernig best er að bera sig að. Þetta styrkir samband milli ástvina og gefur á báða vegu. Aðstandendur þurfa að sjálfsögðu einnig nudd. Þeir eru oft undir miklu andlegu og stundum líkamlegu álagi vegna skertrar getu hins sjúka til að sjá um persónulegar þarfir sínar og e.t.v. vegna verri fjárhags og kvíða fyrir framtíð og missi hins sjúka.

  • Það er augljóst að hjúkrunarmeðferð af þessu tagi tekur tíma sem oft er ekki fyrir hendi. Þess vegna þurfa hjúkrunarfræðingar að fá til samstarfs við sig lærða nuddara. Í þannig samstarfi er hægt að miðla þekkingu á báða bóga og nýta þekkingu hvorrar stéttar um sig með því aðalmarkmiði að bæta líðan sjúklingsins og aðstandenda hans.

  • Oft á tíðum kemur nuddið af stað innri vinnu hjá sjúklingum og hvatinn til að bæta heilsu sína og lífsgæði fer ósjálfrátt í gang. Sumir fara að borða betri fæðu og aðrir að hreyfa sig meira. Þörfin fyrir hreyfingu eykst með nýrri tilfinningu fyrir líkamanum.

Brot úr grein Hrundar Helgadóttur, hjúkrunarfræðings og nuddfræðings, sem birtist í 20 ára afmælisriti Félags íslenskra nuddara. Hafir þú áhuga á að nálgast ritið er hægt að fá það lánað á bókasafni eða hafa samband við Félag íslenskra heilsunuddara til að fá það sent. Hrund hefur veitt góðfúslegt leyfi sitt til að birta brotin hér á vefnum.

ÞB