brjóstakrabbamein.is

Um vefsetrið

blomahaus

Líf með brjóstakrabbameini - Líf án brjóstakrabbamein

ÓMETANLEGT HJÁLPARTÆKI

þeirra sem leita fræðslu um sjúkdóminn og stuðnings vegna greiningar, meðferðar og eftir krabbameinsmeðferð.

brjostakrabbi


www.brjostakrabbamein.is

er opin leið að áreiðanlegum upplýsingum lækna og sérfræðinga á nóttu sem degi, alla daga vikunnar.

Þar er að finna á einum stað FLEST sem snertir brjóstakrabbamein á einhvern hátt og hvernig draga má úr líkum á því

Vefurinn á sér líklega enga hlið-stæðu á íslensku, með fimm stóra efnisflokka sem í eru rúmlega 800 greinar eða síður. Vefurinn hefur verið aðgengilegur á netinu frá því í maí 2008.

Hlutverk vefsetursins er m.a. að miðla fróðleik um sjúkdóminn, mismunandi meðferðir, gefa hollráð um heilsu og bata og veita styrk þeim sem á stuðningi þurfa að halda, hvort sem það eru krabbameinssjúklingar eða aðstandendur þeirra.

Stór hluti vefsetursins getur komið fólki að gagni með annars konar krabbamein, ýmislegt kann að hjálpa þeim sem stríða við langvinna sjúkdóma og vefurinn er mikill fróðleiksbrunnur nemum, fólki í heilbrigðisgeiranum og öðrum sem áhuga hafa á efninu.

Að stofni til er efni vefsetursins þýtt og staðfært með góðfúslegu leyfi Dr. Marisa Weiss, stofnanda og forseta breastcancer.org sem hlotið hefur fjölda viðurkenninga. Að baki bandaríska vefsins stendur rúmlega 60 manna hópur lækna og sérfræðinga á öllum sviðum krabbameinslækninga, einkum brjóstakrabbameins. Læknisfræðilegt efni á brjostakrabbamein.is hefur mest allt verið lesið yfir af íslensku fagfólki í heilbrigðisfræðum.

Umsjón vefsins er í höndum Helga Sigurðssonar krabbameinslæknis Ph.D,  Kristínar Alexíusdóttur  hjúkrunarfræðings MPH og Nönnu K. Sigurðardóttur félagsráðgjafa MSW.

Þegar um er að ræða læknisfræðilegar upplýsingar er æskilegt að leita staðfestingar hjá íslenskum krabbameinslækni við fyrsta tækifæri.

brjostakrabbi

UMSAGNIR FAGFÓLKS

Umsögnum er raðað í stafrófsröð eftir eiginnöfnum þeirra sem hafa látið álit sitt í ljós.

„Brjóstakrabbamein.is er vefur sem inniheldur greinargóðar og auðskiljanlegar upplýsingar og fræðsluefni um brjóstakrabbamein. Ég mæli oft með vefnum við skjólstæðinga mína á krabbameinslækningadeild Landspítala, þar sem ég stunda daglega greiningu og meðferð brjóstakrabbameins. Internetið er miðill sem æ fleiri sjúklingar tileinka sér við öflun upplýsinga um sjúkdóma og mikilvægt er að geta beint á góðar vefsíður á íslenskri tungu sem fagfólk getur treyst á.”

Ásgerður Sverrisdóttir, krabbameinslæknir LSH


„Vefurinn brjóstakrabbamein.is er mjög fræðandi og vel uppbyggður vefur fyrir allar þær konur sem hafa greinst með brjóstakrabbamein. Hann nýtist einnig öðrum krabbameinsgreindum þar sem efnið er nytsamlegt og hefur mikið upplýsingargildi.

Mæli eindregið með að vefurinn verði starfræktur sem lengst.”

Erna Magnúsdóttir, forstöðumaður Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar.

 

„Áður en vefurinn var opnaður las ég yfir stóran hluta þess læknisfræðilega efnis sem þar er að finna og ég mæli hiklaust með þessari fróðleiksnámu.

Eitt helsta ráðið við kvíða og ótta, sem oft fylgir því að greinast með krabbamein, er góð og gagnreynd fræðsla. Ekki síst þess vegan mæli ég með vefnum fyrir þá sem eru að greinast með sjúkdóminn og aðstandendur þeirra.  

Í námsskrá í krabbameinslækningum fyrir læknanema er vísað í vefinn sem góða heimild um almenningsfræðslu.  Þó nokkrir læknanemar á 6-ári, sem er síðasta árið í almennu læknanmámi, hafa tekið það fram við mig að klárlega sé besta almenna fræðslan, sem tengist tilteknum sjúkdómi á íslensku, að finna á vefnum brjóstakrabbamein.is."

Dr.Helgi Sigurðsson, professor/yfirlæknir í krabbameinslækningum við læknadeild Háskóla Íslands/ Landspítali

 

„Eftir fyrsta sjokkið við greiningu brjóstakrabbameins  skiptir máli að ná tökum á tilverunni og beina huganum í átt að uppbyggingu.  Þekking á eigin sjúkdómi styrkir og vinnur gegn kvíða  sem óneitanlega er oft fylgifyskur brjóstakrabbameins.  Fljótlega fara  flestir að velta fyrir sér  hvað þeir geti gert sjálfir til að efla bata og láta sér líða betur.  Þekking um sjúkdóminn, meðferðina og hvers má vænta skiptir þarna miklu máli. Vefurinn brjóstakrabbamein.is hvetur og styður í þessa átt. Það á ekki aðeins við konur sjálfar heldur alla þá sem næst henni standa, fjölskyldu og vini."

Nanna K. Sigurðardóttir, félagsráðgjafi og verkefnisstjóri, Krabbameinsmiðstöð LSH.

 

„Vefurinn brjóstakrabbamein.is veitir sannreyndar upplýsingar á íslensku um algengasta krabbamein kvenna.  Engar öfgar er þar að finna heldur hollráð sem öllum eru til góðs.  Sjálfur leita ég stundum  á vefinn til að afla mér upplýsinga og oftar til að finna snjallar þýðingar á erlendum hugtökum.

Vefurinn er ofinn úr þráðunum umhyggju og góðvild og hann er einnig fallegur á að líta. Ég get mælt með vefnum brjóstakrabbamein.is.”

Snorri Ingimarsson, sjálfstætt starfandi geð- og krabbameinslæknir