Stofnandi vefsins

Þuríður Baxter var stofnandi vefsins brjóstakrabbamein.is. Þegar hún greindist með brjóstakrabbamein  2004 leitaði hún allra leiða til að styrkja sig líkamlega, andlega og félagslega. Stór þáttur var að fræðast um sjúkdóminn og um það sem að gagni mætti koma í daglegu lífi til þess að byggja upp þrótt og úthald á sem flestum sviðum.

Þegar Þuríður byrjaði að vinna að vefnum , ásamt syni sínum Stefáni Baxter árið  2006  hafði hún fyrirmynd í erlendum upplýsingavef brestcancer.org.  Hún þýddi greinar og taldi mikilvægt að áreiðanlegar upplýsingar sem konur gætu treyst væru aðgengilegar á íslensku. Þuríður frumsamdi einnig efni um hugðarefni sín og setti inn á vefinn. Það sem upphaflega var hennar eigin endurhæfing fyrir sjálfa sig fór að gagnast öðrum.  Hún fann styrk í  áhuga og samhug hópsins sem heimsótti brjóstakrabbamein.is. Nánar má lesa um tilurð vefsins með hennar eigin orðum í kaflanum Saga Þuríðar.

Þuríður Helgi

Þuríður féll frá í ágúst árið 2012. Skömmu áður höfðu hún og sonur hennar afhent Helga Sigurðssyni krabbameinslækni (sjá mynd) Læknadeild og Landspítala vefinn að gjöf. Fyrir þessa höfðinglegu gjöf er þakkað en að baki vefnum er áætlað að liggi um 5000 vinnustundir. Vefurinn hefur verið uppfærður að forminu til og er nú einnig snjallvefur. Efnislega er hann nánast óbreyttur eins og hún skildi við hann og efnið auðkennt með bókstöfum hennar ÞB. Þegar fram líða stundir verður vefurinn þróaður áfram ekki síst eftir ábendingum frá notendum vefsins um það sem betur má fara.

Umsjón vefsins núna er í höndum Helga Sigurðssonar krabbameinslæknis Ph.D, og Kristínar K. Alexíusdóttur hjúkrunarfræðings MPH .